Körfubolti

LeBron sjö sætum á undan Kobe á lista ESPN yfir bestu leikmenn sögunnar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sjö sætum munar á Kobe Bryant og LeBron James á lista ESPN yfir bestu leikmenn í sögu NBA-deildarinnar í körfubolta.
Sjö sætum munar á Kobe Bryant og LeBron James á lista ESPN yfir bestu leikmenn í sögu NBA-deildarinnar í körfubolta. getty/Harry How

Í dag birti síðasti hluti lista ESPN yfir 74 bestu leikmenn í 74 ára sögu NBA-deildarinnar í körfubolta.

Það kemur lítið á óvart að Michael Jordan skipi efsta sæti listans. Þótt sautján ár séu síðan Jordan lagði skóna endanlega á hilluna hefur hann stolið senunni undanfarnar vikur eftir að sýningar á þáttaröðinni The Last Dance hófust.

Í 2. sæti lista ESPN er LeBron James. Hann er jafnframt sá eini á meðal tíu efstu á listanum sem er enn að spila.

LeBron hafði leikið afar vel með Los Angeles Lakers áður en keppni var hætt vegna kórónuveirufaraldursins. Á sínu sautjánda tímabili í NBA var hann með 25,7 stig, 7,9 fráköst og 10,6 stoðsendingar að meðaltali í leik.

Stigahæsti leikmaður í sögu NBA, Kareem Abdul-Jabbar, er þriðji á listanum. Hann var sex sinnum valinn mikilvægasti leikmaður deildarinnar, oftar en nokkur annar. Sigursælasti leikmaður NBA-sögunnar, Bill Russell er í 4. sæti listans.

Kobe Bryant, sem lést í janúar, er níundi besti leikmaður í sögu NBA að mati sérfræðinga ESPN. Kobe varð fimm sinnum meistari með Los Angeles Lakers á 20 ára ferli í NBA.

Fyrrverandi samherji hans hjá Lakers, Shaquille O'Neal, er í 10. sæti listans. Shaq varð þrisvar sinnum meistari með Lakers og einu sinni með Miami Heat.

Félagarnir Magic Johnson og Larry Bird skipa fimmta og 7. sæti listans. Milli þeirra er Wilt Chamberlain. Tim Duncan er síðan í 8. sætinu.

Umfjöllun ESPN má nálgast með því að smella hér.

Tíu bestu leikmenn NBA-sögunnar að mati ESPN

  1. Michael Jordan
  2. LeBron James
  3. Kareem Abdul-Jabbar
  4. Bill Russell
  5. Magic Johnson
  6. Wilt Chamberlain
  7. Larry Bird
  8. Tim Duncan
  9. Kobe Bryant
  10. Shaquille O'Neal
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×