Sport

Þrír titilbardagar á einu stærsta UFC-kvöldi ársins

Pétur Marinó Jónsson skrifar
Usman og Covington á blaðamannafundi í nóvember.
Usman og Covington á blaðamannafundi í nóvember. Vísir/Getty

UFC 245 fer fram í nótt þar sem Colby Covington fær loksins tækifæri á stóra titlinum. Það hefur verið mikill hiti á milli Covington og meistarans og útkljá þeir málin í búrinu í nótt.

Colby Covington hefur hagað sér bjánalega undanfarin þrjú ár til að vekja athygli á sér. Þrátt fyrir stælana verður ekki tekið af honum að hann er frábær bardagamaður sem hefur unnið sína bardaga. Covington fékk titilbardaga um bráðabirgðarbeltið í júní 2018 þar sem hann sigraði Rafael dos Anjos. Covington átti að mæta þáverandi meistara Tyron Woodley um haustið en reyndist erfiður í samningaviðræðum og fékk Darren Till titilbardagann í stað Covington.

Covington var því sviptur titlinum en það hefur ekki komið í veg fyrir að hann ferðist með beltið hvert sem hann fer. Kamaru Usman tók síðan veltivigtartitilinn af Tyron Woodley og verður hans fyrsta titilvörn gegn Colby Covington.

Þeir Usman og Covington hafa lengi eldað saman grátt silfur en eiga líka margt sameiginlegt. Báðir eru frábærir glímumenn og æfa í 30 mínútna fjarlægð frá hvor öðrum. Báðir eru þeir 15-1 sem atvinnumenn í MMA og hafa báðir unnið 10 bardaga í UFC. Þeir hafa lengi vitað af hvor öðrum en nú er komið að því að þeir mætist.

Þó stíll þeirra í búrinu sé keimlíkur gætu þeir vart verið ólíkari utan búrsins. Meistarinn Kamaru Usman flutti til Bandaríkjanna frá Nígeríu 9 ára gamall og er stoltur innflytjandi. Covington er hins vegar stoltur Trump stuðningsmaður og fer hvergi án þess að vera með Make America Great Again derhúfuna sína.

Usman hefur tekið mörg ummæli Covington persónulega og segist ætla að láta Covington finna fyrir reiði allra innflytjenda þegar þeir mætast í búrinu í kvöld. Usman gæti komið of æstur í bardagann eftir að Covington hefur potað í Usman í marga mánuði.

Þeir Usman og Covington mætast í aðalbardaga kvöldsins um veltivigtartitilinn. Í næstsíðasta bardaga kvöldsins mætast þeir Max Holloway og Alexander Volkanovski um fjaðurvigtartitilinn og í þriðja titilbardaga kvöldsins mætast þær Amanda Nunes og Germaine de Randamie.

UFC 245 verður sýnt á Stöð 2 Sport í nótt og hefst bein útsending klukkan 03:00.

MMA

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×