Í maí var sagt frá því að Truell hafi krafist þess að yfirvöld í Bretlandi skilgreini fyrirtækið Atlantic Superconnection sem erlendan raforkuframleiðanda og samþykki lagningu sæstrengs til Íslands. Skilgreiningin myndi gera fyrirtækinu kleift að selja raforku á niðurgreiddu verði og mun það vera stór þáttur í því að Truell geti fengið fjárfesta að verkefninu, sem kallast IceLink.
Þrýsti Truell mjög á stjórnvöld að greiða götu verkefnisins en auk sæstrengsins hefur Truell í hyggju að reisa verksmiðju á Englandi í tengslum við verkefnið sem myndi skapa 800 störf.

Í frétt Sunday Times sem birtist í gær er enn fjallað um málið og segir þar að sæstrengsdraumar Truell séu orðnir „rafmagnslausir“. Þar segir að Andrea Leadsom, viðskiptaráðherra Bretlands, og Kwasi Kwarteng, orkumálaráðherra Bretlands, hafi lýst yfir efasemdum um fýsileika verkefnisins, áður en boðað var til kosninga í Bretlandi.
Sagður hafa „aðra hluti til þess að eyða tímanum í“
Þá segir einnig í frétt Times að forverar þeirra á ráðherrastóli, Greg Clark og Claire Perry, hafi áður hafnað tillögu Truell. Það hafi leitt til þess að Truell hafi hótað því að kvarta formlega yfir málsmeðferð málsins.Í Times er þó haft eftir honum að hann hafi „aðra hluti til þess að eyða tímanum í“ án þess þó að það sé skýrt nánar. Þá hefur Times einnig eftir heimildarmanni sínum innan viðskiptaráðuneytisins að engin formleg umsókn hafi borist vegna málsins og því sé ráðuneytið ekki í aðstöðu til að taka afstöðu til málsins.
Truell var á árum áður ráðgjafi Boris Johnson, núverandi forsætisráðherra Bretlands, auk þess sem að hann hefur stutt Íhaldsflokkinn fjárhagslega.
Hann virðist vera mjög áhugasamur um orkumál á Íslandi en á síðasta ári var greint frá því að svissneskt fjárfestingafélag Truell, DC Renewable Energy AG, hefði keypti 12,7 prósent hlut í HS Orku. Kaupin gengu þó ekki í gegn þar sem Truell tókst ekki að ljúka fjármögnun vegna þeirra. Samlagshlutafélagið Jarðvarmi, sem er í eigu fjórtán lífeyrissjóða, keypti þess í stað hlutinn í apríl á þessu ári.