Tom Brady gat tekið takmarkaðan þátt á æfingu New England Patriots í gær vegna meiðsla en hann gerði samt grín að öllu saman.
Samkvæmt sjúkraskýrslu Patriots er hann að glíma við meiðsli í öxl og tá.
„Þetta er líklega í fyrsta skiptið á ferlinum sem táin á mér kemst á meiðslalistann,“ sagði Brady og glotti við tönn.
„Þið þekkið okkur. Við erum mjög nákvæmir í meiðslaskráningunni og því þurfti að minnast á tána líka. Annars líður mér ágætlega. Það eru allir að glíma við eitthvað á þessum tímapunkti tímabilsins og ég er sáttur á meðan ég hef heilsu til þess að fara út á völlinn.“
Patriots á stórleik um næstu helgi er Patrick Mahomes og Kansas City Chiefs koma í heimsókn.
„Það verður gríðarlega erfiður leikur. Vonandi getum við spilað af þeirri orku og krafti sem við höfum verið að gera,“ sagði Brady en lið hans tapaði gegn Houston fyrir viku.
Í leiknum var Brady mjög ósáttur við útherjana sína og öskraði á þá allan leikinn. Hann viðurkenndi að röddin væri ekki enn komin almennilega í lag eftir alla hárblásarana sem hann tók.
