Kappræðurnar hófust hins vegar á umræðum um ákæruferlið á hendur Donald Trump Bandaríkjaforseta þar sem frambjóðendurnir skiptust á að lýsa yfir óánægju með starfshætti og hegðun forsetans. Öll voru þau sammála um að nauðsynlegt væri að fá nýjan forseta kjörinn í kosningunum í nóvember á næsta ári.
„Hann er líklega spilltasti forsetinn í sögunni,“ sagði öldungadeildarþingmaðurinn Bernie Sanders. Hann sagði þó einnig að nauðsynlegt væri fyrir Demókrata að einblína á eitthvað annað en Trump. „Vitið þið það, að ef við gerum það þá munum við tapa kosningunum,“ sagði forsetinn.
Þegar frambjóðendurnir voru búnir að gagnrýna Trump barst talið, líkt og í fyrri kappræðum, að sjúkratryggingum, efnahagsmálum og umhverfis- og loftslagsmálum.
Washington Post segir frá því að Warren hafi talað mest í kappræðum gærdagsins, 13,4 mínútur. Pete Buttigieg, bæjarstjóri South Bend, talaði í 12,8 mínútur og fyrrverandi varaforsetinn Joe Biden í 12,6 mínútur.