Sport

Fékk gullverðlaunin loksins afhent 908 dögum síðar

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Ásdís með gullverðlaunin um hálsinn í höfuðstöðvum ÍSÍ í gær.
Ásdís með gullverðlaunin um hálsinn í höfuðstöðvum ÍSÍ í gær. Mynd/ÍSÍ
Frjálsíþróttakonan Ásdís Hjálmsdóttir fékk í vikunni gullverðlaunin í kúluvarpi fyrir Smáþjóðaleikana 2017, 908 dögum eftir að keppni lauk. Ásdís, sem er þrefaldur Ólympíufari í spjótkasti, hlaut silfurverðlaun á sínum tíma og þurfti að horfa á eftir gullverðlaununum til Gavriella Fella frá Kýpur en Fella féll á lyfjaprófi og var Ásdísi því úrskurðaður sigur. Með því féll met Fella einnig úr gildi en hún átti besta kast í sögu kúluvarps kvenna á Smáþjóðaleikunum sem fóru fram í San Marínó.

Það þýðir einnig að Thelma Kristjánsdóttir náði fjórða sætinu í kúluvarpinu en hana vantaði tæpan metra til að ná í verðlaunasæti.

Fella átti besta kastið í San Marínó þegar hún kastaði 15,81 metra en besta kast Ásdísar var 15,39 metrar. Ásdís hefur tekið miklum framförum í kúluvarpi á síðustu árum og bætti fyrr á þessu ári 27 ára gamalt Íslandsmet í kúluvarpi þegar hún átti kast upp á 16,53 metra. Þá á Ásdís einnig Íslandsmetið í kúluvarpi innanhúss sem er 15,96 metrar.

Ásdís vann því tvöfalt á Smáþjóðaleikunum eftir að hafa unnið öruggan sigur í spjótkastinu en hún var stödd hér á landi til að halda erindi í Afreksbúðum ÍSÍ þar sem hún sagði frá ferli sínum. ÍSÍ nýtti því tækifærið til að afhenda Ásdísi gullverðlaunin eftir að henni var tilkynnt fyrr á árinu að henni hefði verið úrskurðaður sigur í San Marínó. 

„Ég fékk að vita af þessu fyrr á árinu og það stóð til að afhenda mér þessi verðlaun fyrr en þetta hentaði vel enda var ég að halda fyrirlestur hjá ÍSÍ. Það var í sumar sem ég sendi silfurverðlaunin aftur heim til Íslands til þess að þau gætu farið til stelpunnar sem lenti í þriðja sæti,“ sagði Ásdís sem býr og æfir í Svíþjóð.

„Þetta er auðvitað langt ferli, ef það finnst eitthvert efni þarf að rannsaka það betur og ég veit ekki hvort hún neitaði sök en þetta er auðvitað ekki í lagi. Það á ekki að komast upp með þetta og það er auðvitað grafalvarlegt að hún hafi fallið á lyfjaprófi. Það þarf að taka harkalega á þessum málum þó að ég taki glöð við þessum verðlaunum.“

Gullverðlaunin voru Ásdísi kærkomin enda í fyrsta sinn sem hún vinnur til gullverðlauna á erlendri grund í annarri íþrótt en spjótkasti. Hún hefur um árabil verið ein fremsta frjálsíþróttamanneskja landsins og stefnir á fjórðu Ólympíuleikana í röð í Tókýó næsta sumar.

„Þetta er í fyrsta sinn sem ég vinn til gullverðlauna í alþjóðlegu móti í annarri íþróttagrein en spjótkasti. Ég hef fengið silfurverðlaun í kringlukasti á Smáþjóðaleikunum og bronsverðlaun í kúluvarpi á NM unglinga en þetta var fyrsti sigurinn. Þetta er ákveðinn áfangi á ferlinum sem ég er stolt af.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×