Franskur námsmaður er lífshættulega særður eftir að hann kveikti í sér fyrir utan veitingastað á lóð Háskólans í Lyon í dag.
Nokkrum klukkustundum fyrir atvikið birti maðurinn færslu á Facebook þar sem hann sagði frá þeim fjárhagsvandræðum sem hann væri í.
Kenndi hann Emmanuel Macron Frakklandsforseta, tveimur forverum hans í starfi – Nicolas Sarcozy og Francois Hollande, Evrópusambandinu og Marine Le Pen, leiðtoga Þjóðfylkingarinnar, um að hafa „drepið sig“. Sagðist hann ekki geta lifað á einungis 450 evrum á mánuði, um 62 þúsund krónum.
Í frétt BBC er haft eftir slökkviliðsmönnum að maðurinn hafi hlotið brunasár á 90 prósent líkamans.
„Látum okkur berjast gegn uppgangi fasisma, sem einungis sundrar okkur… og frjálslyndisstefnu sem skapar ójöfnuð,“ sagði maðurinn á Facebook-síðu sinni.
Kærasta mannsins gerði lögreglu viðvart eftir að hann greindi frá áformum sínum í textaskilaboðum.
