Innlent

Tví­tugur karl­maður í ein­angrun grunaður um til­raun til mann­dráps

Nadine Guðrún Yaghi og Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifa
Maðurinn var úrskurðaður í gæsluvarðhald um helgina á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Hann sætir einangrun.
Maðurinn var úrskurðaður í gæsluvarðhald um helgina á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Hann sætir einangrun. vísir/vilhelm
Tvítugur karlmaður var um helgina úrskurðaður í gæsluvarðhald til næstkomandi föstudags, 25. október, grunaður um mjög grófa líkamsárás gagnvart kærustu sinni í miðbæ Reykjavíkur aðfaranótt laugardags.

Er málið meðal annars rannsakað sem tilraun til manndráps og sætir maðurinn nú einangrun.

Þetta staðfestir Hulda Elsa Björgvinsdóttir, yfirmaður ákærusviðs lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við fréttastofu. Hún segir málið á viðkvæmu stigi og að ekki verði veittar frekari upplýsingar að svo stöddu.

Uppfært klukkan 12:13:

Eftirfarandi tilkynning barst frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu rétt í þessu vegna málsins:

Karlmaður um tvítugt var um helgina í Héraðsdómi Reykjavíkur úrskurðaður í sex daga gæsluvarðhald, eða til 25. október, á grundvelli rannsóknarhagsmuna á kröfu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í þágu rannsóknar hennar á alvarlegri líkamsárás.


Tilkynning um málið barst lögreglu aðfaranótt laugardags og var maðurinn handtekinn á vettvangi miðsvæðis í borginni. Árásarþoli, ung kona, var fluttur á slysadeild. Rannsókn málsins miðar vel.

Ekki er hægt að veita frekari upplýsingar um málið að svo stöddu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×