Kínversk yfirvöld eru sögð undirbúa það að skipta Carrie Lam, umdeildum leiðtoga sjálfstjórnarhéraðsins Hong Kong, út fyrir nýjan. Lam hefur staðið í ströngu undanfarna mánuði vegna róstursamra mótmæla íbúa Hong Kong.
Financial Times greinir frá og hefur eftir heimildarmönnum sem hafa fengið upplýsingar um umræðu innan kínverska stjórnkerfisins um það að rétt sé að skipta Lam út fyrir annan leiðtoga sem myndi gegna starfinu tímabundið
Hundruð þúsunda mótmælenda hafa mótmælt því sem þeir telja vera tilraunir kínverskra stjórnvalda til að herða tak sitt á Hong Kong með því að skerða réttindi íbúa sjálfstjórnarhéraðsins, sem njóta meira frelsis en aðrir íbúar Kína.
Upphafið að mótmælunum var umdeilt lagafrumvarp sem heimila átti kínverskum yfirvöldum að rétta yfir íbúum Hong Kong í dómstólum staðsettum á meginlandi Kína, sem eru kirfilega undir stjórn kínverska Kommúnistaflokksins. Frumvarpið hefur verið dregið til baka, en mótmælin hafa haldið áfram
Reiði íbúa hefur oftar en ekki beinst gegn Lam en í september vísaði hún fregnum þess efnis að hún hafi óskað eftir því að stíga til hliðar til þess að lægja mótmælaöldurnar á bug.
Í frétt Financial Times kemur fram að kínversk yfirvöld vilji þó að ástandið róist í héraðinu áður en að skipt verður um leiðtoga, svo ekki líti út fyrir að Kínastjórn sé að láta undan kröfum mótmælenda. Lam hefur setið í embætti frá árinu 2017 og á kjörtímabili hennar að ljúka árið 2022.
Í frétt Financial Times kemur fram að horft sé til þess að eftirmaður hennar sitji út kjörtímabilið, láti Kínastjórn af því verða að skipta henni út.
