Erlent

Japanski herinn kallaður út vegna veðurofsans

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Björgunarfólk að störfum eftir að Tamagawa-fljót flæddi yfir bakka sína í gær.
Björgunarfólk að störfum eftir að Tamagawa-fljót flæddi yfir bakka sína í gær. Vísir/Getty
Japönsk stjórnvöld hafa ákveðið að kalla út á þriðja tug þúsunda hermanna og björgunarfólks, eftir að fellibylurinn Hagibis skall á ströndum landsins með þeim afleiðingum að 18 týndu lífi.

Fellibylurinn náði landi skammt utan höfuðborgarinnar Tókýó í gær, en mikil flóð og aurskriður fylgdu hinum feiknasterka vindi sem bylurinn hafði í för með sér. Minnst 13 manns er enn saknað eftir að ofsaveðrið reið yfir. Styrkur Hagibis fer nú minnkandi og hefur hann að nýju færst á haf út.

Samkvæmt opinberum tölum frá ríkisstjórn Japans hafa alls 27 þúsund hermenn og björgunaraðilar verið kallaðir út til þess að bregðast við afleiðingum fellibyljarins.

Um 400 þúsund heimili urðu rafmagns, eða vatnslaus, auk þess sem samgöngur röskuðust verulega vegna byljarins, þar sem ófáum lesta- og flugferðum var aflýst vegna Hagibis, sem er talinn vera kraftmesti fellibylur til að lenda á Japan á síðustu 60 árum.

Þá var nokkrum leikjum á heimsmeistaramótinu í útiknattleik (e. rugby) frestað vegna veðurs, en lykilleikur milli Skota og gestgjafanna í Japan fer fram í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×