„Við erum að koma hingað til að vekja athygli á málinu í Rojava, við erum að vekja athygli á fasisma og við erum að fordæma aðgerðir Erdogan,“ segir Lenya Rún Anwar Faraj.
Erdogan Tyrklandsforseti féllst á bón Bandaríkjastjórnar í fyrradag um að gera 120 klukkustunda vopnahlé í norðausturhluta Sýrlands. Ætlast var til þess að hersveitir Kúrda yfirgæfu í millitíðinni það svæði sem Tyrkir hafa skilgreint sem sérstakt öryggissvæði. Í dag hafa borist fréttir af því að vopnahléið sé ekki virt en það hefur fréttastofa CNN til að mynda eftir tveimur bandarískum embættismönnum.
„Þetta er ekki vopnahlé. Það er ekki verið að virða vopnahléið og þetta er þannig að Kúrdar, þau hafa 120 klukkutíma til að hörfa frá svæðinu og Tyrkland má þá bara eiga það. Það eru kúrdískir borgarar ennþá þarna inni særðir, það er ennþá verið að ráðast á þá. Það er ekkert sérstakt við þetta vopnahlé,“ segir Lenya.
Hvernig finnst þér að fylgjast með fréttum af svæðinu héðan frá Íslandi?
„Mér líður eins og það væri svo miklu meira sem að ég gæti gert. Þetta náttúrlega bara brýtur í mér hjartað og annarra Kúrda líka. Við erum svo hjálplaus eitthvað og máttlaus, getum ekki gert neitt,“ segir Lenya. Íslensk stjórnvöld hafa fordæmt innrás Tyrkja og lýst áhyggjum af stöðunni við Bandaríkjastjórn. „Þau gætu tekið það fram að við séum í NATO og notað það til einhvers góð. Það er svo mikið sem íslensk stjórnvöld gætu gert betur, gefið þessu meiri umfjöllun til dæmis,“ segir Lenya.
