Innlent

Agnes Bragadóttir hætt hjá Morgunblaðinu eftir 35 ára starf

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Agnes Bragadóttir á að baki langan og farsælan feril í fjölmiðlum, lengst af á Morgunblaðinu.
Agnes Bragadóttir á að baki langan og farsælan feril í fjölmiðlum, lengst af á Morgunblaðinu.
Agnes Bragadóttir, blaðamaður á Morgunblaðinu, vann í gær sinn síðasta dag hjá blaðinu. Þar hafði hún starfað í rúm 35 ár, sem blaðamaður og fréttastjóri. Kveðjuhóf til heiðurs Agnesi var haldið á ritstjórn Morgunblaðsins í Hádegismóum í gær.

Agnes varð 67 ára þann 19. september síðastliðinn. Hún hefur lýst því yfir í viðtölum við fjölmiðla um starfslokin að henni hafi þótt þetta góð tímamót til að láta staðar numið.

Þá sagði hún í samtali við Fréttablaðið í gær að tilfinningarnar væru blendnar. Hún kveðji vinnufélagana með trega og söknuði en finni um leið fyrir tilhlökkun. Hún hyggist jafnframt hlúa vel að heilsunni eftir slæmt fótbrot í fyrra, sem varð þess valdandi að hún var í rúmt hálft ár í gifsi og hjólastól.

Agnes er með kennara- og íþróttakennarapróf og starfaði við kennslu og handboltaþjálfun á Ísafirði. Þá lauk hún háskólaprófi í ensku og þýsku frá Háskóla Íslands. Hún hóf blaðamennskuferilinn á Tímanum árið 1980 og var því í nær fjörutíu ár í bransanum.

Hjá Morgunblaðinu starfaði hún lengst af sem blaðamaður. Þá stýrði hún einnig menningar- og viðskiptaumfjöllun og gegndi starfi fréttastjóra.

Við þetta má bæta að Agnes er grjótharður Víkingur eins og kom á daginn þegar Stefán Árni Pálsson skellti sér í Víkina í fyrra. Víkingur varð bikarmeistari í sumar og því eftirminnilegt ár hjá Agnesi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×