„Við lifum í órólegum heimi. Margir óttast að troðast undir, vera slegnir niður, skildir eftir. Vélar taka vinnu fólks, mansalsmenn svipta það virðingunni, lýðskrumarar svipta það réttindum sínum, stríðsherrar svipta það lífi, jarðefnaeldsneyti sviptir það framtíðinni en samt trúir fólk á þann anda og hugmyndir sem fá okkur hingað í þennan sal. Það trúir á Sameinuðu þjóðirnar,“ sagði Guterres.
Allra augu á Trump
Ræða Trumps Bandaríkjaforseta vakti einna mesta athygli, þótt boðskapur hans hafi ekki verið nýr. Varði hann tíma sínum í að verja innflytjendastefnu ríkisstjórnar sinnar og ræddi einnig um stefnu landsins í utanríkismálum.Þannig hvatti hann ríki heims til þess að standa saman gegn Írönum og sakaði þarlend stjórnvöld um blóðþorsta, gagnrýndi stjórnvöld í Venesúela harðlega, líkt og Jair Bolsonaro Brasilíuforseti gerði í sinni ræðu, kvaðst ósáttur við Kínverja og sagði tíma þjóðernishyggjunnar runninn upp.
„Hinn frjálsi heimur verður að taka ástfóstri við grundvallarstoðir þjóðríkisins. Það má hvorki afmá þær né skipta þeim út,“ sagði Bandaríkjamaðurinn.
Erdogan einblíndi á hatursorðræðu
Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti ræddi um hatursáróður gegn múslimum og kenndi popúlískum stjórnmálamönnum um.„Það er grundvallarskylda okkar sem embættismenn og -konur að taka upp umburðarlyndan málflutning og eyða þessu samfélagsmeini í eitt skipti fyrir öll,“ sagði Tyrkinn.