Erlent

Máli Johnson og vinkonu vísað til lögreglu

Kjartan Kjartansson skrifar
Johnson hefur staðið í ströngu vegna Brexit undanfarið. Nú er hann sakaður um mögulegt brot í starfi sem borgarstjóri.
Johnson hefur staðið í ströngu vegna Brexit undanfarið. Nú er hann sakaður um mögulegt brot í starfi sem borgarstjóri. Vísir/EPA
Borgaryfirvöld í London hafa vísað máli sem varðar meint brot Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, í embætti þegar hann var borgarstjóri til lögreglu. Ásakanir eru um að bandarísk vinkona Johnson hafi fengið sérmeðferð hjá borginni.

Breska ríkisútvarpið BBC segir að eftirlitsfulltrúi borgaryfirvalda sem hefur það hlutverk að fylgjast með framferði borgarstjóra og borgarfulltrúa hafi skrifað eftirlitsstofnun lögreglunnar (IOPC) um mál Johnson og Jennifer Arcuri, bandarískrar vinkonu hans.

Arcuri er sögð hafa tekið þátt í viðskiptasendinefndum sem Johnson leiddi sem borgarstjóri og að fyrirtæki hennar hafi hlotið þúsunda punda styrki í krafti vinskaps hennar við Johnson.

Johnson hefur neitað því að hafa gert nokkuð óeðlilegt. Bandamenn hans innan ríkisstjórnarinnar fullyrða að ásakanirnar eigi sér pólitískar rætur. Þeir telja tímasetningu ásakananna tortryggilega í ljósi þess að landsfundur Íhaldsflokksins er rétt handan við hornið.

Málið kemur inn á borð IOPC vegna þess að borgarstjóri London ber einnig ábyrgð á löggæslumálum. Stofnunin tekur á kvörtunum gegn lögregluliði á Englandi og í Wales.

Johnson var borgarstjóri London frá 2008 til 2016. BBC segist hafa rætt við fólk sem tók þátt í sendinefndum Johnson á erlenda grundu. Arcuri hafi þar staðið út þar sem fyrirtæki hennar voru mun minni en annarra fulltrúa þar.

Þá er skrifstofa borgarstjórans sögð hafa gripið inni í þegar umsókn Arcuri um að taka þátt í ferð til Tel Aviv var hafnað í fyrstu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×