Allt tiltækt lið Slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu var kallað út skömmu eftir miðnætti eftir að tilkynning barst um að eldur logaði í íbúð á þriðju hæð, í blokk í Jórufelli.
Þegar fyrsti slökkviliðsbíll kom á vettvang logaði töluverður eldur í íbúðinni, meðal annars út um glugga.
Reykkafarar voru sendir inn og náðu þeir fljótt að slökkva eldinn, sem logaði í rúmdýnu í herbergi, að sögn varðstjóra.
Mikill viðbúnaður er á vettvangi þar sem um fjölbýlishús er að ræða. Húsið var rýmt og hefur rúta slökkviliðsins verið send á staðinn til þess að skjóta skjólshúsi yfir íbúa á meðan slökkvilið athafnar sig.
Í samtali við fréttastofu sagði varðstóri að einhver vinna væri framundan á vettvangi og ekki ljóst hversu lengi aðgerðir munu standa yfir.
Varðstjóri hafði ekki upplýsingar um hvort einhver meiðsli hafi orðið á fólki.
Mikill eldur logaði í íbúð í Jórufelli
Jóhann K. Jóhannsson skrifar
