Erlent

Aldrei séð viðlíka úrkomu: „Þetta er svo langur tími og svo mikið magn“

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Yfirvöld á spáni hafa staðfest að minnst þrír létust í flóðunum í suðausturhluta Spánar.
Yfirvöld á spáni hafa staðfest að minnst þrír létust í flóðunum í suðausturhluta Spánar. Vísir/EPA
Í gær mældist mesta úrkoma í suðausturhluta Spánar frá upphafi mælinga. Guðrún Helga Gísladóttir, sem búsett er í borginni Murcia á suðausturhluta Spánar segist aldrei hafa séð viðlíka úrkomu og í Murcia í gær. Hún hefur verið búsett í borginni í sextán ár.

Talið er að minnst þrír séu látnir í flóðunum og þar á meðal systkini á sextugsaldri sem fundust látin í bifreið sinni eftir að vatnsflaumurinn hreif hana með sér og þau drukknað. Þetta gerðist í bænum Caudete sem er um hundrað kílómetra suðvestan við borgina Valencia.

Ár hafa flætt yfir bakka sína og vatnsflaumurinn hrifsað til sín fjölda bíla og annað lauslegt. Lestar- og flugsamgöngur liggja niðri á svæðunum sem urðu verst úti auk þess sem skólahald liggur niðri.

„Við fengum að vita af þessu á mánudag, þriðjudag og ég var farin að hafa áhyggjur af því að fara í vinnuna, ég vinn hérna tuttugu kílómetrum í burtu, hérna upp í fjallaþorpi, og ég var alveg farin að hafa áhyggjur af þessu en svo lokuðu þeir öllum skólum bæði á fimmtudag og föstudag þannig að ég þurfti ekki að hreyfa mig. Manni var ekkert alveg sama. Ég hef alveg orðið vör við svona rigningar en ekki svona, en ekki í neinni líkingu við þetta. Þetta er svo langur tími, svo mikið magn,“ segir Guðrún Helga.

Bæjarstjórinn hefur lýst yfir svæðinu sem hamfarasvæði og rauð veðurviðvörun er í gildi.

„Allar skemmdir eru ekki komnar í ljós enn og Murcia og Valencia hérað og það sem er næst Alicante er það sem hefur orðið verst úti.“

Guðrún Helga vonar að það versta sé yfirstaðið.

„Sólin er komin í gegn núna og göturnar eru að þorna, en ég veit að á stöðunum þar sem „römblurnar“ eru og þar sem aðalvatnsflaumurinn er er ennþá fullt af vatni. Þannig að þetta er ekkert alveg búið en það virðist vera að slaka á þessu og það hefur ekki rignt núna í rúman klukkutíma líklega þannig að þetta virðist vera á uppleið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×