Sérstök sýning á íslenska „splatternum“ Reykjavík Whale Watching Massacre, sem leikstjórinn Júlíus Kemp sendi frá sér 2009, er á meðal fjölda sérviðburða á RIFF.
Reykjavik Whale Watching Massacre greinir frá ósamstæðum hópi ferðamanna frá ýmsum heimshornum sem ætla að lyfta anda sínum með því að skoða hvali á miðunum.
Ekki vill þó betur til en svo að skipstjóri skoðunarskipsins drepst í slysi og eftir standa ráðvilltir og vélarvana landkrabbarnir. Þeim til bjargar kemur kengbrengluð fjölskylda hvalveiðifólks á veiðiskipi sínu sem svo illa vill til að hefur sér það helst til dægradvalar í fásinninu að slátra náttúruunnendum og „greenpiss“-pakki.
Hyski þetta minnir um margt á úrkynjaðan skrílinn sem slátraði og lagði sér til munns ólánsama unglinga í tímamótahrollvekjunni Texas Chainsaw Massacre sem Tobe Hooper gerði 1974.
Hvalveiðiblóðbaðið er síðan beintengt því sem átti sér stað í Texas þar sem Gunnar Hansen leikur skipstjóra hvalaskoðunarskipsins en hann gerði garðinn frægan sem Leðurfésið í Texas Chain Massacre.
Helgi Björnsson, Guðrún Gísladóttir og Stefán Jónsson leika hvalveiðifjölskylduna ógeðslegu og gefa ekkert eftir í almennum subbuskap og manndrápum.
RWWM er fyrirtaks upphitun fyrir RIFF og hryllingsmyndirnar sem þar verða sýndar en myndin er sýnd á föstudaginn á Center Hotel Plaza klukkan 20.45. Húsið er hins vegar opnað klukkan 20 og hjartastyrkjandi drykkir verða á tilboði fyrir þá sem telja sig þurfa að stappa í sig stálinu fyrir sýninguna. –þþ
