Félagar í Fimm stjörnu hreyfingunni samþykktu ríkisstjórnarsamstarf við Lýðræðisflokkinn í rafrænni atkvæðagreiðslu sem lauk í dag. Þar með er ljóst að ekkert verður af þingkosningum í bili en þær virtust blasa við eftir að upp úr samstarfi hreyfingarinnar við hægriöfgaflokkinn Bandalagið slitnaði í síðasta mánuði.
Forsvarsmenn Fimm stjörnu hreyfingarinnar, popúlísks flokks sem komst til valda í fyrra, og miðvinstri flokksins Lýðræðisflokksins, höfðu þegar gert stjórnarsáttmála. Rúm 79% félaga í Fimm stjörnu hreyfingunni samþykktu sáttmálann í dag, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.
Giuseppe Conte, lagaprófessorinn sem hefur starfað sem óháður forsætisráðherra, ætlar að gegna embættinu áfram.
Matteo Salvini, leiðtogi Bandalagsins, sleit ríkisstjórnarsamstarfinu við Fimm stjörnu hreyfinguna í ágúst. Hann hefur notið mikils meðbyrs í skoðanakönnunum og ætlaði sér að knýja fram kosningar til að nýta sér hann.
Fimm stjörnu hreyfingin og Lýðræðisflokkurinn hafa fram að þessu eldað grátt silfur saman en flokkarnir lögðu ágreining sinn til hliðar til að halda hægriöfgaflokknum frá ríkisstjórn.
Ný ríkisstjórn komin á koppinn á Ítalíu

Tengdar fréttir

Tilkynnt um nýja ríkisstjórn á Ítalíu
Leiðtogi Fimmstjörnuhreyfingarinnar segist hafa í hyggju að skipa Giouseppe Conte forsætisráðherra á ný.

Óljóst hvort flokksmenn samþykki nýtt stjórnarsamstarf
Ítalska Fimm stjörnu hreyfingin heldur í dag stafræna atkvæðagreiðslu meðal flokksmanna um hvort flokkurinn skuli mynda nýja ríkisstjórn með Lýðræðisflokknum.