Sigríður Á. Andersen mun taka við af Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttir, sem formaður utanríkismálanefndar Alþingis. Þetta var ákveðið á fundi þingflokks Sjálfstæðisflokksins í kvöld. Þá verður Vilhjálmur Árnason, þingmaður Suðurkjördæmis, varaformaður þingflokks Sjálfstæðiflokksins.
Þetta kemur fram á vef Morgunblaðsins en þingflokkurinn kom saman í kvöld til að ákveða hver tæki við embættum Áslaugar Örnu eftir að hún tók við stöðu dómsmálaráðherra.
Sigríður sagði af sér sem dómsmálaráðherra 13. mars í kjölfar þess að Mannréttindadómstóll Evrópu komst að þeirri niðurstöðu að skipan hennar á dómurum við Landsrétt hefði stangast á við mannréttindasáttmála Evrópu. Við embættinu tók tímabundið Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir.
Vilhjálmur Árnason tekur við varaformennsku þingflokksins sem Áslaug Arna gegndi sömuleiðis. Sigríður hefur ekki gegnt neinum nefndarstörfum eftir að hún sagði af sér embætti dómsmálaráðherra eftir dóm Mannréttindadómstólsins vegna skipan dómara við Landsrétt.
Áslaug Arna mun sömuleiðis hætta sem ritari flokksins og eru nokkrir áhugasamir um að fylla í hennar skarð. Þeirra á meðal þingmaðurinn Jón Gunnarsson og borgarfulltrúarnir Eyþór Arnalds og Hildur Björnsdóttir. Ákvörðunin verður tekin á flokksráðsfundi þann 14. september.
