Innlent

Líkamsárás ekki kærð

Kristlín Dís Ingilínardóttir skrifar
Upptökur úr eftirlitsmyndavélum við skólann verða skoðaðar.
Upptökur úr eftirlitsmyndavélum við skólann verða skoðaðar. Fréttablaðið/Stefán
Lögregla hefur enn ekki handtekið neinn vegna alvarlegrar líkamsárásar í Fellahverfi í fyrrakvöld. Þá réðust fjórir eða fimm menn á sautján ára dreng og börðu hann með kylfu og belti. Tekin var skýrsla af drengnum vegna málsins en hann hefur enn ekki lagt fram formlega kæru að sögn Gunnars Hilmarssonar, aðalvarðstjóra hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Árásarmennirnir eltu drenginn frá verslunarkjarnanum Fellagörðum og að Fellaskóla þar sem þeir réðust á hann. Drengurinn hlaut töluverða áverka á andliti og kvartaði einnig undan verkjum í hendi.

„Málið er í rannsókn hjá rannsóknardeildinni og lítið er hægt að segja um það að svo stöddu,“ segir Gunnar. Lögregla hyggst skoða upptökur úr eftirlitsmyndavélum við Fellaskóla til að kanna hvort árásin hafi náðst á mynd. Gunnar segir óvíst hvort gögnin muni nýtast lögreglu þar sem myndavélar við skóla vísi yfirleitt að húsunum.

Áður hefur verið greint frá því að þó nokkur vitni hafi verið að árásinni. Að sögn Gunnars hafa einhver vitni komið til skýrslutöku en ekki er víst hvort búið sé að ræða við alla sem koma að málinu. Talið er að árásarmennirnir hafi þekkt fórnarlambið.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×