Innlent

Stofna starfshópa til að bregðast við starfsmannaeklu

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Starfshópar voru stofnaðir á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun til að bregðast við starfsmannaeklu í heilbrigðiskerfinu. Heilbrigðisráðherra segir að hægt sé að nýta nýtt frumvarp um stuðningssjóð námsmanna til að auka áhuga á hjúkrunarnámi.

Mönnunarvandi í heilbrigðiskrefinu hefur verið í umræðunni, en t.d. hefur verið alvarlegur skortur á hjúkrunarfræðingum á Landspítalanum. Á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun var ákveðið að stofna starfshópa sem horfa sérstaklega á leiðir til að fjölga heilbrigðisstarfsfólki.

„Svo settum við í gang annan starfshóp sem er með heilbrigðisráðuneytinu og fjármálaráðuneytinu og snýst um starfsaðstæður og starfsumhverfi heilbrigðisstétta í mjög víðum skilningi og snýst bæði um að bæta starfsumhverfið eins og það er og líka að leita leiða til að laða fólk aftur til baka inn í greinarnar. Fólk sem hefur kosið að starfa annars staðar í samfélaginu en hefur menntað sig til heilbrigðisþjónustu,“ sagði Svandís Svavarsóttir, heilbrigðisráðherra.

Þá vill ráðherra nýta frumvarp um sjóð námsmanna til að mynda hvata til að skrá sig í nám í hjúkrunarfræði.

„Skoða leðir til að nýta sveigjanleika sem er í nýju frumvarpi menntamálaráðherra um nýjan sjóð til að styðja við námsmenn. Þar gætum við örvað tiltekna hópa í tiltekið nám í samræmi við frumvarpið eins og það liggur fyrir núna. Það er fær leið og við eigum að finna þær leiðir sem eru færar,“ sagði Svandís.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×