Innlent

Berum virðingu fyrir vatninu

Inga Rún Sigurðardóttir skrifar
Nauðsynlegt er að standa vörð um öryggi vatnsbóla og vera viðbúin mengunarslysum. Íslenskt vatn er öðruvísi en útlenskt vatn.
Nauðsynlegt er að standa vörð um öryggi vatnsbóla og vera viðbúin mengunarslysum. Íslenskt vatn er öðruvísi en útlenskt vatn. Getty/ Classen Rafael
Fjórðungur mannkyns býr við yfirvofandi vatnsskort samkvæmt nýrri skýrslu. Á Íslandi er nóg vatn en aðgengilegu neysluvatni er eitthvað misskipt á milli landshluta. Vatnsverndarsvæði eru viðkvæm og við þurfum að vera viðbúin því versta. Það er vel hægt að fara betur með vatnið, það streymir ekki eins endalaust og það virðist gera.

Páll Stefánsson, deildarstjóri hjá Heilbrigðiseftirliti Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis, þekkir neysluvatnsmál á höfuðborgarsvæðinu vel eftir áratugastarf í þessum geira.

Erum við að fara nógu vel með þessa auðlind sem kalda vatnið er?

„Í það heila myndi ég segja að við séum að fara vel með okkar neysluvatn en vatn er í grunninn afar viðkvæm neysluvara,“ segir Páll. Sveitarfélögin sex á höfuðborgarsvæðinu hafa sameinast um að verja sína vatnsverndarhagsmuni, útskýrir Páll, og segir að það hafi verið mikið heillaskref þegar fyrsta sameiginlega vatnsverndarskipulagið var samþykkt árið 1998. „Aukin byggð, vatnstaka og umsvif ofanjarðar kallaði síðan á endurnýjun þannig að 2015 var gert nýtt vatnsverndarskipulag og ný og strangari samþykkt. Nýja kortið byggir á töluvert aukinni þekkingu,“ segir hann en allt sem fer fram innan vatnsverndarsvæðisins er leyfisskilt.

Vegir á vatnsverndarsvæði

Ýmiss konar óhöpp geta átt sér stað á vatnsverndarsvæðinu. „Þar erum við rosalega heppin á höfuðborgarsvæðinu að við höfum alveg frábært slökkvilið,“ segir hann en slökkviliðið bregst við bráðamengun. „Verði mengunar­óhapp er hringt í 112 og slökkviliðið stýrir hreinsunaraðgerðum framan af en heilbrigðiseftirlitið er kallað til líka. Við höfum átt mjög gott samstarf við þjónustumiðstöðvar sveitarfélaganna. Við tökum upp símann og þá koma starfsmenn þjónustumiðstöðvanna með tæki og tól til að taka upp mengunina. Orkuveitan er líka með sitt lið. Þessi óhöpp eru tíð, því miður alltof tíð, en þau hafa yfirleitt verið lítil.“

Suðurlandsvegurinn liggur í gegnum vatnsverndarsvæðið og Páll segir að dæmi um óhöpp séu árekstrar og útafkeyrslur. Fleiri dæmi eru að olíutankur fari að leka á gömlum bíl eða glussaslanga fari í sundur í gröfu eða vörubíl.

Hann segir fyllstu ástæðu til að hafa áhyggjur af stærri óhöppum þó að við höfum sloppið við þau hingað til. „Flugvél gæti hrapað á vatnsverndarsvæðinu eða olíubíll farið út af og olía farið niður. Stærstu vörubílar geta verið með 600 lítra af af dísilolíu.“

Suðurlandsvegurinn er ekki eini vegurinn sem skapar hættu. „Það eru aðrir vegir sem eru hættulegir. Í Heiðmörk er vegakerfi og þar keyra menn stundum frjálslega á vondum vegum. Menn aka þarna að vetri til og það er mjög algengt að bílar fari út af. Þetta er beint ofan í vatnsbólum Reykvíkinga og hugsanlega vatnsbólum Kópavogs.“

Aðrir vegir skapa enn meiri hættu. „Önnur hætta sem er ekki síður mikil er að það er hægt að aka frá Suðurlandsvegi í gegnum Bláfjöllin og koma niður í Hafnarfjörð. Vegurinn frá Hafnarfirði og upp að skíðasvæðunum er ónýtur. Fyrir skömmu var afar slæmt slys við Rauðhóla. Þá var fólki bent á að fara í staðinn annaðhvort Nesjavallaleið eða Bláfjallaleið. Það þýddi að við fengum stærðar flutningabíla brunandi þarna en vatnsból Hafnfirðinga eru gjörsamlega varnarlaus ef það verður slys á þessum vegi. Þetta verður að stöðva.“

Þarf að fjölga vatnstökustöðum

Páll segir mikilvægt að vatnsveiturnar hafi fleiri en einn vatnstökustað til að tryggja öryggi neysluvatnsins.

„Orkuveitan býr svo vel að vera með tvo ólíka vatnstökustaði. Það má segja að þeir hafi borð fyrir báru, ef það verður eitthvert slys á öðrum hvorum staðnum þá geta þeir flutt vatnstökuna að stærstum hluta yfir í hitt vatnsbólið og það er það öryggi sem við myndum vilja sjá. Hvorki Vatnsveita Kópavogs né Vatnsveita Hafnarfjarðar búa yfir varavatnsbólum,“ segir Páll sem myndi vilja sjá fleiri vatnsból byggð upp og betri tengingar milli vatnsveitnanna.

Vatnsból Hafnfirðinga í Kaldárbotnum.Vísir/vilhelm
„Segjum að það verði eldgos í Bláfjöllum. Það er talið að það myndi að öllum líkindum ekki hafa veruleg áhrif á vatnsbólin og gæði vatnsins, nema tímabundið. Þá væri afar gott að hafa fleiri vatnsæðar til höfuðborgarsvæðisins og geta miðlað á milli,“ segir Páll.

Hann nefnir geislavirkt úrfelli sem dæmi um aðra mögulega vá en það eru kjarnorkuver bæði á Bretlandseyjum og í Svíþjóð. „Vatnsbólin okkar eru misvel varin fyrir geislavirkni og þá væri hægt að miðla á milli. Flugvél gæti farið niður,“ segir Páll og bætir við að ýmislegt geti gerst. Hann segir að stærsta tegund af jarðskjálfta yrði ekki stórt vandamál en lagnir gætu farið í sundur, þó að þær hafi ekki gert það í síðasta stóra skjálfta.

Hvað þá?

Þegar farið er í framkvæmdir inni á vatnsverndarsvæðum eru gerðar áhættugreiningar. Páll vill vita hvernig bregðast skuli við hlutum sem eru litlar líkur á að eigi sér stað eins og þeim umhverfisvám og slysum sem minnst hefur verið á. „Ætlum við að ná í alla mjólkurbíla landsins og keyra vatn til að dreifa því? Eða ætlum við að segja fólkinu að fara út í búð og kaupa kók? Ég vil vita, hvað þá?“



Hann bendir á að öryggi neysluvatnsins sé eitt og annað sé ímyndin. „Ef við eyðileggjum ímyndina, þá er líka vá. Ef vatnsímyndin fer, þá fer líka ímyndin af hollustu matvælanna sem við erum að flytja út og neyta. Hreinleikaímyndin er okkar verðmætasta afurð.“

Vatnsnotkun eykst stöðugt, eigum við að stemma stigu við þessari aukningu?

„Ég held í þessu eins og öllu; við verðum að fara að draga úr neyslunni, án þess að skerða lífsgæði í sjálfu sér, það er annar hlutur,“ segir Páll og setur magnið í samhengi.

„Í grófum dráttum myndi ég halda að meðalvatnsnotkun á höfuðborgarsvæðinu væri um eitt tonn á sekúndu. Vatnið sem við notum er álíka mikið og þriðjungur af meðalrennsli Elliðaánna. Þetta er gríðarleg vatnsnotkun.“

Getty/Catherine Falls Commercial

Erum ekki nógu varkár

Hrefna Kristmannsdóttir, jarðefnafræðingur og prófessor emeritus, veit sérstaklega mikið um vatn. Finnst henni að við séum að fara nógu vel með þessa auðlind?

„Nei, ég held við séum alls ekki nógu varkár. Við eigum svo mikið af vatni að okkur finnst þetta vera óendanleg auðlind. Við erum að menga allt of mikið á mörgum stöðum. Það má segja að þetta sé kannski allt afturkræft, af því að það rignir svo mikið hérna en við verðum að passa okkur hvar við setjum öskuhauga og rotþrær. Í kringum Mývatn er til dæmis mjög viðkvæmt svæði. Það er líka mjög viðkvæmt á Suðurlandi þar sem allar þessar sumarhúsabyggðir eru. Við verðum að virða vatnsverndarmörkin og hafa ekki of mörg sumarhús á viðkvæmum svæðum. Síðan, á þessum svæðum þar sem er lítið vatn, verðum við bara að passa okkur, eins og fyrir austan, að vera á tánum með það,“ segir hún en aðgengilegu neysluvatni er eitthvað misskipt milli landshluta.

„Eini staðurinn þar sem væri hætta á að við hefðum of lítið vatn er á Austur- og Norðausturlandi. Reyndar á svæðum eins og Kelduhverfinu, þar kemur svo mikið frá hálendinu sem grunnvatn, en til dæmis á Austfjörðum, þar eru oft vandræði með að finna vatn,“ segir Hrefna en bergið þar er eldra og þéttara en víðast hvar hérlendis.

Hrefna Kristmannsdóttir

Evrópumet í úrkomu

„Það sem skiptir máli fyrir vatnið á Íslandi er að það rignir rosalega mikið hérna; við eigum Evrópumet í úrkomu. Svo skiptir það líka máli hvað Ísland er ungt jarðfræðilega og hvað bergið er lekt, hvað það kemst mikið vatn niður í berggrunninn. Við erum með nóg grunnvatn og grunnvatnið er mikið hreinna en ef við þyrftum að nota yfirborðsvatn. Þetta er undirstaðan,“ segir hún og nefnir til samanburðar að í Noregi séu yfir 90% af neysluvatni hreinsað yfirborðsvatn á meðan hér sé mest notað grunnvatn. Munurinn á grunnvatni og yfirborðsvatni er að grunnvatnið síast í jarðlögunum og er þar af leiðandi miklu hreinna.“

Eigum við að tileinka okkur meiri virðingu í umgengni við vatn?

„Við höfum svo mikið vatn og erum vön því að það sé nóg til. Vatnið kostar heldur ekki mikið. Það er kannski eitthvað sem þarf að taka upp, að mæla vatnið. Það er reynsla fyrir því með heita vatnið. Hérna á Íslandi fer þetta bara eftir stærð húsnæðisins. Ég held að þetta sé eitthvað sem ætti að gera, að mæla hvað þú notar og borga eftir því,“ segir Hrefna.

„Það myndi fá okkur til að spara vatn en það er dýrt að koma þessu á. Það þarf að setja mæla upp alls staðar og lesa af. Það myndi vera mjög skilvirk leið til að spara vatn. En þá segja sumir: Af hverju að spara vatnið því þetta fer þá bara út í sjó í staðinn?“

Hverju svarar þú þeim?

„Á sumum stöðum væri það mjög vel við hæfi að láta menn ekki fá þetta bunandi. Það eru staðir á landinu þar sem vatn er takmarkað og þar væri þetta góð hugmynd.“



Er vatnið okkar gott?

Páll svarar þessari spurningu: „Ég held að ég sé að tala fyrir landið allt, að vatnið okkar er rosalega gott. Það er bragðlítið þannig að sumum útlendingum finnst það ekkert sérstaklega gott. Við erum með mjög mjúkt vatn. Sumir útlendingar eru vanir því að hafa kalkríkt vatn. Styrkur efna í vatninu er lágur.“

Hrefna hefur líka heyrt að útlendingum þyki íslenska vatnið bragðlaust. Hún segir að ástæðan sé þessi mikla úrkoma á Íslandi og að bergið okkar sé svo lekt og því sé vatnið að jafnaði mun efnasnauðara en erlent vatn. Sömuleiðis sé jarðvegs- og gróðurhula þunn og það hafi einni áhrif í þessa veru. Gerð jarðvegs- og berggrunns sem sem vatnið rennur um mótar efnasamsetninguna. Ferskvatn á Íslandi er mjúkt en víða í nágrannalöndum okkar er vatnið hart vegna kalksteins í berggrunninum. Kalksteinn finnst ekki á Íslandi en ölkelduvatn finnst sums staðar á Snæfellsnesi og á jöðrum gosbeltanna þar sem er uppstreymi kolsýru frá djúpum kvikuinnskotun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×