Það fréttist á sínum tíma að mál Conor McGregor og mannsins væri í rannsókn en nú hefur myndband af atvikinu verið gert opinbert.
TMZ Sports birti myndband úr eftirlitsmyndavél á barnum en þar mátti sjá samskipti Conor McGregor og mannsins sem vildi ekki drekka vískí McGregor.
Eldri maðurinn sést fyrst neita tvisvar sinnum þegar Conor McGregor smellir vískiglasi fyrir framan hann. Hann færir glasið strax í burtu.
Conor McGregor hafði þarna mætt höfðingjalegur inn á barinn og boðið að kaupa vískistaup af sínu viskíi, Proper 12, fyrir gesti barsins.
Eldri maðurinn er harður á því að vilja ekki þiggja boð Conor McGregor. Það endar síðan með að Conor slær hann í hausinn áður en fylgdarsveinar Írans draga hann í burtu.
TMZ Sports hafði áður fjallað um atvikið og fengið þá að vita að lögreglan væri að rannsaka þetta mál. Lögreglan hafði þá fengið að sjá myndbandið.
Blaðamenn TMZ Sports fór að kanna málið aftur nokkrum mánuðum síðar og komust þá að því að McGregor hefði aldrei fengið á sig kæru vegna atviksins.
TMZ Sports ákvað því að birta myndbandið sem má sjá hér fyrir neðan.
Dana White hefur talað um möguleika á bardaga á milli Conor McGregor og Khabib Nurmagomedov. Bardagar Anthony Pettis og Nate Diaz um næstu helgi sem og bardagi Khabib Nurmagomedov og Dustin Poirier í næsta mánuði gæti haft eitthvað með það að segja hvort Conor McGregor snúi aftur inn í búrið á næstu misserum.