Innlent

Höfuðkúpubrotnaði eftir líkamsárás í Eyjum

Gígja Hilmarsdóttir skrifar
Þjóðhátíð lauk í gærkvöldi.
Þjóðhátíð lauk í gærkvöldi. Vísir/Sigurjón
Maður sem varð fyrir árás í Vestmannaeyjum á sunnudagsmorgun er höfuðkúpubrotinn að því er kemur fram á Mbl. Maðurinn liggur á spítala og er undir eftirliti.

Þetta staðfestir Tryggi Kr. Ólafsson, lögreglumaður í Vestmannaeyjum.

Vísir greindi frá því í gær að tveir menn voru fluttir með sjúkraflugi til Reykjavíkur eftir slagsmál á sunnudagsmorgun. Ráðist hafi verið á þá og segir lögreglufulltrúi að um hópslagsmál væri að ræða og mennina vera þolendur í málinu. 

Annar mannanna hlaut tannbrot og var hann útskrifaður af spítala í gærdag. Tryggvi segir vitni hafa verið yfirheyrð en árásin átti sér stað á tjaldsvæðinu hjá Áshamri ofan við hátíðarsvæðið. Þá segir hann lögregluna leita fleiri vitna og biður þau að hafa samband séu einhver til staðar.

Gærkvöldið og nóttin var róleg í Eyjum að sögn Tryggva. „Einungis tveir gistu fangageymslur og var það vegna ölvunar og óspekta, þeir voru leystir út með sekt í morgun,“ segir Tryggvi.

Tryggvi segir sunnudagskvöldið yfirleitt ganga vel í Vestmannaeyjum en það vera misjafnt eftir veðri. „Fólk er yfirleitt betra þegar það er gott veður. Heilt yfir gekk þetta vel fyrir utan þessi ofbeldisbrot,“ segir Tryggvi.

Hann segir flesta vera farna úr eynni og tiltekt hafna á svæðinu. „Þetta tekur einhverja daga og verður vonandi orðið þokkalegt um næstu helgi,“ segir Tryggvi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×