Innlent

Mál Seðlabanka fær flýtimeðferð

Aðalheiður Ámundadóttir skrifar
Már Guðmundsson fráfarandi Seðlabankastjóri.
Már Guðmundsson fráfarandi Seðlabankastjóri. Fréttablaðið/Sigtryggur Ari
Dómari hefur fallist á beiðni Seðlabanka Íslands um flýtimeðferð á máli bankans gegn Ara Brynjólfssyni, blaðamanni á Fréttablaðinu. Í málinu krefst Seðlabankinn ógildingar á niðurstöðu úrskurðarnefndar um upplýsingamál sem úrskurðaði fyrr í mánuðinum að Seðlabankanum væri skylt að afhenda blaðamanninum umbeðin gögn um námsstyrk bankans til fyrrverandi framkvæmdastjóra gjaldeyriseftirlitsins árið 2016.

Ari óskaði fyrst eftir upplýsingum frá Seðlabankanum um námsstyrk sem bankinn veitti Ingibjörgu Guðbjartsdóttur, fyrrverandi framkvæmdastjóra gjaldeyriseftirlitsins, í nóvember í fyrra, fyrir átta mánuðum. Seðlabankinn synjaði beiðninni með vísan til undanþágu­reglna í upplýsingalögum. Synjunin var kærð til úrskurðarnefndar um upplýsingamál sem komst að þeirri niðurstöðu að bankanum væri skylt að afhenda umbeðin gögn. Bankinn óskaði í kjölfarið eftir því að réttaráhrifum úrskurðarins yrði frestað meðan skylda bankans til að afhenda gögnin yrði borin undir dómstóla, eins og heimilt er samkvæmt upplýsingalögum. Nefndin féllst á þá beiðni í síðustu viku. Frestun réttaráhrifa er bundin því skilyrði að málinu sé vísað til dómstóla innan sjö daga og að óskað sé eftir flýtimeðferð fyrir dómi.

Lögmaður bankans sendi Héraðsdómi Reykjaness slíka beiðni á mánudag og féllst dómari á þá beiðni í gær. Í kjölfarið var réttarstefna gegn Ara gefin út. Málið verður þingfest í Héraðsdómi Reykjaness á þriðjudag í næstu viku.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×