Demókrataflokkurinn bandaríski greinir frá því í dag hvaða forsetaframbjóðendur uppfylltu skilyrði fyrir því að fá sæti, eða öllu heldur ræðupall, í næstu kappræðum flokksins.
Þurfa frambjóðendurnir annaðhvort að hafa mælst með eins prósents stuðning í þremur þeirra kannana sem flokkurinn horfir til eða hafa fengið styrk frá 65.000 einstaklingum, þar af að minnsta kosti 200 í tuttugu mismunandi ríkjum.
Samkvæmt greiningu gagnafréttavefsins FiveThirtyEight hefur 21 frambjóðandi uppfyllt skilyrðin. Hins vegar er ekki pláss nema fyrir tuttugu og því mun Mike Gravel, fyrrverandi öldungadeildarþingmaður, ekki fá pláss.
