Þetta kemur fram í greinargerð sem Arnar Þór Stefánsson lögmaður vann fyrir Seðlabankann.
Í greinargerðinni segir að það hafi flækt verkefni sviðsins að halda í mannafla þar sem gert var ráð fyrir að starfsemin yrði tímabundin. Varð vandinn stærri með tímanum þar sem starfsfólkið varð æ verðmætara „vegna þeirrar einstöku reynslu sem það hafði safnað“ eins og það er orðað í greinargerðinni.
„Beitt var ýmsum ráðum svo sem lengri uppsagnarfrestum og síðar bónusgreiðslum ef starfsmenn væru í starfi á ákveðnum lykildagsetningum sem miðuðust gjarnan við áfanga varðandi losun hafta,“ segir í greinargerðinni. „Í einstaka tilfellum var lykilstarfsmönnum lofað framtíðarstarfi í bankanum ef talið var að þeir myndu örugglega nýtast víðar.“
Árið 2015 var sérstakur álagstoppur í starfi gjaldeyriseftirlitsins, var þá gengið frá uppgjöri slitabúanna. Einnig síðla sumars 2016 þegar haldið var stórt útboð á aflandskrónum.
„Mæddi þá mikið á Ingibjörgu Guðbjartsdóttur, framkvæmdastjóra gjaldeyriseftirlitsins, en hún var einnig fulltrúi bankans í framkvæmdahópi um losun fjármagnshafta. Greiddar voru álagsgreiðslur til starfsmanna vegna þessarar vinnu,“ segir í greinargerðinni. Fékk Ingibjörg þó minna en aðrir þar sem álagstoppar voru hluti af hennar starfi.

Hún fór svo í leyfi árið 2016 til að fara í nám við Harvard-háskóla og sagði starfi sínu lausu í lok árs 2017. Á því tímabili vann hún að gerð greinargerðar sem tengdist alþjóðasamningum sem nýttist að sögn í stefnumótunarvinnu bankans.
Blaðamanni Fréttablaðsins var synjað um aðgang að efni samnings Ingibjargar við Seðlabankann en úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur komist að þeirri niðurstöðu að bankanum beri að afhenda skjalið.
Bankinn hefur hins vegar farið fram á að réttaráhrifum þess úrskurðar verði frestað. Heimild til slíkrar frestunar er bundin því skilyði að málinu verði skotið til dómstóla innan sjö daga frá því að fallist er á frestunina.
Í fyrrnefndri greinargerð bankans til úrskurðarnefndarinnar segir um samninginn að opinber birting samningsins gæti dregið úr möguleikum bankans til að gera sambærilega samninga í framtíðinni þegar það er talið nauðsynlegt til að stefna ekki verkefnum bankans í hættu. Þá kunni opinber birting samningsins eins og hann sé úr garði gerður, án framangreindrar forsögu, að skerða með óbætanlegum hætti annars vegar orðspor bankans og hins vegar starfsmannsins.
Með því að Fréttablaðið birtir hér þá forsögu sem lögmaður Seðlabankans telur forsendu birtingar samningsins, mun blaðið krefjast þess að frestun réttaráhrifa úrskurðarins verði hafnað og blaðamanni Fréttablaðsins send umbeðin gögn án tafar.