Innlent

Enginn sérstakur starfslokasamningur við Auðun Frey

Ari Brynjólfsson skrifar
Auðun Freyr Ingvarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Félagsbústaða.
Auðun Freyr Ingvarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Félagsbústaða. Mynd/Félagsbústaðir
Auðun Freyr Ingvars­son, fyrrverandi framkvæmdastjóri Félagsbústaða, og Félagsbústaðir hafna því að eitthvað óeðlilegt sé við tæplega 37 milljóna greiðslur til hans á rekstrarárinu 2018. Ekki hafi verið gerður neinn sérstakur starfslokasamningur við hann.

Auðun Freyr sagði af sér í kjölfar athugasemda Innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar á 330 milljóna króna framúrkeyrslu á framkvæmdum á húsnæði félagsins við Írabakka 2-16.

Samkvæmt ársskýrslu Félagsbústaða námu launagreiðslur til Auðuns Freys 36,9 milljónum í fyrra en 20,5 milljónum árið 2017. Námu mánaðarlaun hans rúmlega 1,6 milljónum króna. Laun Sigrúnar Árnadóttur, sem tók við stöðu framkvæmdastjóra tímabundið námu 4,3 milljónum frá október til lok ársins í fyrra.

Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins, óskaði eftir skýringum á þessu á fundi borgarráðs á fimmtudaginn. „Það er sjálfsagt að spyrja að þessu, þetta er ótrúleg upphæð,“ segir Kolbrún.

Í svari Félagsbústaða við fyrirspurn Fréttablaðsins segir að farið hafi verið eftir ráðningarsamningi við Auðun Frey. „Enginn sérstakur starfslokasamningur var gerður né fékk framkvæmdastjóri greiðslu umfram rétt sinn samkvæmt lögum,“ segir í svari Félagsbústaða.

Auðun Freyr hafnar því að um sé að ræða 16 milljóna króna starfslokagreiðslu. „Það er bara einhver vitleysa. Þetta eru bara eðlileg starfslok. Fólk er með uppsagnarfrest og það er greitt út uppsagnarfrestinn. Hálft ár,“ segir Auðun Freyr. „Það var uppsafnað orlof og eitthvað slíkt. Þegar fólk hættir þá er greitt út sumarfrí sem var ekki tekið út.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×