Innlent

Réðst á leigubílstjóra og skallaði hann í andlitið

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Lögreglan hafði aðeins afskipti af einum ökumanni sem grunaður var um akstur undir áhrifum.
Lögreglan hafði aðeins afskipti af einum ökumanni sem grunaður var um akstur undir áhrifum. Vísir/Vilhelm
Um klukkan hálf tvö í nótt barst lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu tilkynning um mann sem hafði ráðist á leigubílstjóra við Lækjargötu í miðborginni. Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Þegar lögregla kom á vettvang kom í ljós að ágreiningur hafði komið upp á milli mannsins og bílstjórans með þeim afleiðingum að maðurinn réðst að leigubílstjóranum og skallaði hann í andlitið þannig að blæddi úr nefi bílstjórans. Manninum var haldið niðri þegar lögreglu bar að garði og tók hún í kjölfarið við málinu.

Þá hafði lögreglan í Breiðholti afskipti af manni í annarlegu ástandi, sem grunaður var um þjófnað eða hnupl, eins og segir í skýrslu lögreglu. Sá vildi aðspurður ekki segja á sér nein deili, hvorki kennitölu, nafn né annað. Hann var því vistaður í fangageymslu fyrir frekari rannsókn málsins.

Annars var nóttin fremur tíðindalítil, ef marka má dagbók lögreglunnar, en hún hafði aðeins afskipti af einum ökumanni sem talinn var grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Var það í Mosfellsbæ á öðrum tímanum í nótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×