Fjölmargar bæjarhátíðir fara fram um land allt um helgina. Má þar nefna Ólafsvíkurvöku, Bryggjuhátíð á Stokkseyri, Dýrafjarðardaga á Þingeyri, Markaðshelgi í Bolungarvík, Þjóðhátíð á Siglufirði, Írska daga á Akranesi og Goslokahátíð í Vestmannaeyjum.
Stærstar eru þó bæjarhátíðarnar Írskir dagar á Akranesi og Goslokahátíðin í Eyjum.
Veðrið leikur við gesti Vestmannaeyja sem fagna endalokum gossins í Heimaey frá 1973. Um ellefu þúsund manns voru á tónleikum sem fram fóru í Vestmannaeyjum í gær að sögn skipuleggjanda hátíðarinnar. Á goslokahátíðinni fagna Vestmannaeyjar því einnig að hundrað ára eru frá því að bærinn fékk kaupstaðarréttindi.
Fréttastofa náði einnig tali af skipuleggjanda Írskra daga á Akranesi sem sagði veðri leika bæjarbúa og gesti, en hápunktur hátíðarinnar er hið vinsæla lopapeysuball sem fram fer í kvöld. Að sögn skipuleggjanda hefur hátíðin gengið vel og átti hann erfitt með að leyna gleðinni sem ríkti á skaganum.
Þá var margt um að vera í Reykjavík í dag.
Margir kíktu á Skógarleikana sem fram fóru í Heiðmörk. Keppt var í skógarhöggsgreinum á borð við trjáklifur og bolahögg. Þá gafst gestum kostur á að læra að tálga, vinna skúlptúra úrtrjábolum og grilla súrdeigsbrauð á trjágrein yfir varðeldi.
