Birna Kristín Kristjánsdóttir setti Íslandsmet í aldursflokki 16-17 ára í langstökki. Hún stökk 6,12 metra og bætti þar með eigið aldursflokkamet sem var 6,10 metrar frá því síðasta sumar. Birna endaði í tíunda sæti í langstökkskeppninni.
Birna Kristín var meðal hlaupara í 4x100m boðhlaupi ásamt Tiönu Ósk Whitwort, Guðbjörgu Jónu Bjarnadóttur og Þórdísi Evu Steinsdóttir. Þær settu aldursflokkamet í gær þegar þær fóru á 45,75 sekúndum. Í dag náðu þær ekki eins hröðu hlaupi, fóru á 45,83 sekúndum og enduðu í sjönda sæti.
Einu verðlaun Íslands í dag komu í 200m hlaupi kvenna. Guðbjörg Jóna, sem er Íslandsmethafi í greininni, hljóp á 23,51 sekúndu í dag og hreppti fyrir það silfurverðlaun í mótinu. Íslandsmet Guðbjargar í greininni er 23,45 og setti hún það fyrir tveimur vikum.
Tiana Ósk setti persónulegt met í 200m hlaupi þegar hún hljóp á 23,79 sekúndum. Hún varð fimmta í hlaupinu, önnur í sínum riðli. Hinrik Snær Steinsson bætti einnig sitt persónulega met í sömu vegalengd. Hann hljóp á 22,39 sekúndum og varð í 25. sæti.
Þórdís Eva fór 200m hlaupið á 25,08 sekúndum og varð í 21. sæti.
Íslensku keppendurnir hafa nú lokið keppni á mótinu.
