Heimsókn Trump til Bretlands var þegar umdeild en búist er við tugum þúsundum mótmælenda á götum London í dag. Bandaríski forsetinn er óvinsæll á Bretlandi og jók vinsældir sínar líklega ekki með röð óheppilegra ummæla í aðdraganda ferðarinnar.
Þegar hlutaðist hann til um leiðtogaval Íhaldsflokksins þegar hann lýsti stuðningi við Boris Johnson, sagði að Nigel Farage ætti að leiða viðræður Bretlands við Evrópusambandið og kallaði hertogaynjuna af Sussex „ótuktarlega“ og þrætti fyrir það þrátt fyrir hljóðupptökur af ummælunum.
Rétt fyrir lendingu í morgun bætti Trump um betur og beindi spjótum sínum að Sadiq Khan, borgarstjóra London. Sagði hann Khan hafa staðið sig hræðilega sem borgarstjóri og hafi verið „ótuktarlegur“ í garð forseta Bandaríkjanna sem Trump sem sagði langmikilvægasta bandamanna Breta.
„Hann er ískaldur auli sem ætti að einbeita sér að glæpum í London, ekki mér…“ tísti Trump.
.@SadiqKhan, who by all accounts has done a terrible job as Mayor of London, has been foolishly “nasty” to the visiting President of the United States, by far the most important ally of the United Kingdom. He is a stone cold loser who should focus on crime in London, not me......
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) June 3, 2019
„Hvað sem öðru líður hlakka ég til að vera mikill vinur Bretlands og ég hlakka mjög til heimsóknar minnar. Er að lenda núna!“ tísti forseti Bandaríkjanna.
Þetta er fjarri því í fyrsta skipti sem Trump hefur látið Khan heyra það. Bandaríski forsetinn hefur meðal annars gagnrýnt Khan í kjölfar hryðjuverkaárásarinnar á Londonbrúnni fyrir tveimur árum. Kallaði Trump viðbrögð Khan þá „aumkunarverð“.
Ekki er skýrt hver tilefni tísta Trump um Khan var í morgun. Khan var þó í viðtali í gær þar sem hann sagði Trump „smánarlegasta dæmið“ um vaxandi hættu á heimsvísu og líkti orðræðu Bandaríkjaforseta við þá sem „fasistar 20. aldarinnar“ viðhöfðu.
Trump á meðal annars að hitta bresku konungsfjölskylduna í dag. Jeremy Hunt, utanríkisráðherra, tók á móti honum á Stansted-flugvelli í morgun. Hunt er á meðal frambjóðenda í leiðtogavali Íhaldsflokksins og einn helsti andstæðingur Johnson sem Trump lýsti stuðningi við. The Guardian segir að í viðtölum fyrir heimsóknina hafi Hunt ekki reynt að hafna ummælum sem voru borin undir hann um að Trump ræki stefnu sem væri „eitruð og hættuleg“.
„Fólk hefur sínar eigin skoðanir um pólitík Trump forseta. Hann er mjög umdeildur,“ svaraði Hunt.