Ummæli Warren koma í kjölfar fyrstu opinberu yfirlýsingar Roberts Mueller, sérstaka rannsakanda dómsmálaráðuneytisins, um niðurstöður Rússarannsóknarinnar svonefndu á miðvikudag. Þar sagði Mueller skýrt að saksóknarar hans hefðu ekki geta ákært Donald Trump forseta fyrir að hindra framgang réttvísinnar vegna reglna ráðuneytisins um að ekki sé hægt á ákæra sitjandi forseta.
Tók Mueller sérstaklega fram að hefðu saksóknarar hans fundið skýrar vísbendingar um að forsetinn væri saklaus hefðu þeir lýst því yfir í skýrslu sinni. Það hafi þeir ekki gert. Trump hefur ítrekað haldið því fram ranglega að skýrsla Mueller hafi hreinsað hann af allri sök.
„Enginn forseti er ofar lögum. Þingið ætti að gera það ljóst að hægt sé að sækja forseta til saka fyrir glæpi, þar á meðal fyrir að hindra framgang réttvísinnar,“ sagði Warren í yfirlýsingu sem hún sendi frá sér, að því er segir í frétt Reuters-fréttastofunnar.
Demókratar í forvalinu hafa almennt verið hikandi við tala opinberlega um að kæra Trump fyrir embættisbrot í þinginu. Warren hefur aftur á móti talað tæpitungulaust um það.

Segir dómsmálaráðherrann hegða sér eins og persónulegan lögmann Trump
Í skýrslu Mueller tók hann ekki afstöðu til þess hvort Trump hefði gerst sekur um að hindra framgang réttvísinnar en lýsti ellefu dæmum þar sem hann reyndi að leggja stein í götu rannsóknarinnar.„Þegar alríkisstjórnin reyndi að rannsaka gerði Donald Trump allt sem í hans valdi stóð til að tefja, trufla og hindra þá rannsókna á annan hátt. Það er glæpur. Ef Donald Trump væri einhver annar en forseti Bandaríkjanna væri hann í handjárnum og ákærður,“ sagði í yfirlýsingu Warren.
Þá deildi Warren á William Barr, dómsmálaráðherra, sem var skipaður af Trump. Barr hefur verið sakaður um að hafa gefið villandi mynd af niðurstöðum Mueller. Hann sagði meðal annars opinberlega að reglur ráðuneytisins hafi ekki verið ástæða þess að Mueller mælti ekki með að Trump yrði ákærður. Það virðist Mueller hafa hrakið í vikunni.
Barr ákvað sjálfur að ekki væri tilefni til að ákæra Trump fyrir að hindra framgang réttvísinnar eftir að hann fékk skýrslu Mueller í hendur. Warren segir að Barr hafi hagað sér eins og persónulegur verjandi Trump frekar dómsmálaráðherra.