Í Facebook-færslu sem Guðlaug Kristinsdóttir aðstoðarleikskólastjóri deildi inn á hóp ætlaðan íbúum Árbæjar segir að undanfarnar vikur hafi reynst starfsfólki og börnum á Rofaborg erfiðar.
„Mikil skemmdarverk hafa verið unnin á húsinu okkar og lóð. Í byrjun var verið að brjóta 1-2 rúður í einu. „Umferðarspegill“ sem við notum til að fylgjast með blindu horni var eyðilagður. Þakklæðning á nýrri byggingunni okkar eru steinhnullungar og nokkrum sinnum höfum við þurft að týna þá upp út um allan garð eftir að einhverjir hafa gert sér leik að því að henda þeim niður af þakinu. Það er ekki gaman að koma ítrekað að húsinu og lóðinni í þessu ástandi.“

Í samtali við fréttastofu sagði Þórunn Gyða Björnsdóttir, leikskólastjóri Rofaborgar, að alls væri búið að brjóta 15 rúður á síðasta mánuðinum. Einlægur ásetningur skemmdarvarganna til að brjóta og eyðileggja sé augljós.

Skemmdarvargarnir virðast þó ekki hafa látið sér nægja að brjóta rúður leikskólans þar sem einnig er búið að vinna skemmdir á grindverki sem afmarkar lóð leikskólans, ljós í nálægum ljósastaurum og spegil sem ætlað er að hjálpa fólki að sjá fyrir blindhorn.
„Þetta er náttúrulega verst fyrir börnin. Þau hafa ekki skilning á því hvers vegna einhver vill skemma leikskólann þeirra,“ segir Þórunn.

„Ef það eru einhverjar ábendingar, einhver vitni eða einhver sem getur gefið okkur eða lögreglunni vísbendingar um hverjir þetta hugsanlega geta verið. Þetta er mjög mikil vanvirðing við vinnustað barnanna og þau skilja ekki af hverju einhver vill skemma leikskólann þeirra.“
