Meistarar Warriors létu meiðsli Kevin Durants ekki hafa nein áhrif á sig og spiluðu frábæran körfubolta með Steph Curry í sínu besta formi en hann var gjörsamlega magnaður í einvíginu.
Curry skoraði 36,5 stig að meðaltali í leikjunum fjórum eða 146 stig í heildina. Enginn í sögunni hefur skorað fleiri stig í seríu sem endað hefur með sóp í úrslitakeppni NBA-deildarinnar.
Curry bætti met Shaquille O'Neal um eitt stig en stóri maðurinn skoraði 145 stig í heildina er Los Angeles Lakers sópaði New Jersey Nets í lokaúrslitum NBA-deildarinnar árið 2002.
LeBron James féll úr öðru sæti niður í það þriðja en hann skoraði 144 stig í undanúrslitum austurdeildarinnar gegn Toronto fyrir tveimur árum og Kobe Bryant er nú fjórði með sín 140 stig í undanúrslitum vesturdeildarinnar á móti Sacramento Kings frá árinu 2001.
Steph Curry skoraði 26 þriggja stiga körfur í rimmunni gegn Portland, þar af níu í fyrsta leiknum úr fimmtán skotum og sjö í fjórða leiknum úr sextán skotum. Hann var með ótrúlega þrennu í leik fjögur þar sem hann skoraði 37 stig, tók þrettán fráköst og gaf ellefu stoðsendingar.