Innlent

Segir dóminn brjóta gegn réttindum

ÓKP skrifar
Gestur Jónsson lögmaður.
Gestur Jónsson lögmaður.
Hæstiréttur hafnaði endurupptöku á máli Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og Tryggva Jónssonar í gær. Þannig er ákvörðun endurupptökunefndar hafnað sem féllst á beiðnir þeirra um endurupptöku málsins í apríl 2018.

Málið snýr að skattalagabrotum Jóns Ásgeirs, Tryggva og Kristínar Jóhannesdóttur í tengslum við rekstur Baugs og fjárfestingafélagsins Gaums.

Jón Ásgeir og Tryggvi lögðu málið fyrir Mannréttindadómstól Evrópu (MDE) árið 2017 á þeim grundvelli að brotið hefði verið gegn rétti þeirra með því að vera saksóttir og refsað tvívegis vegna sömu eða efnislega sömu háttsemi í tveimur aðskildum málum. Dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að íslenska ríkið hefði brotið gegn þeim í meðferð málanna.

„Þetta er auðvitað staða sem er alvarleg ef við höfum gengist undir það að virða sáttmála eins og Mannréttindasáttmála Evrópu en höfum ekki gert það sem þarf til þess að tryggja það að þegnarnir fái að njóta þessara réttinda,“ segir Gestur Jónsson, verjandi Jóns Ásgeirs.

Honum þyki undarlegt að dómurinn hafi fallið og segir Mannréttindasáttmálann gildandi lög á Íslandi.

„Hann er ekki bara einhver sáttmáli úti í Evrópu, þetta er hluti af íslenskri löggjöf. Alþingi setti Mannréttindasáttmálann sem hluta af íslenskum lögum árið 1994. Og í þeim ákvæðum felst meðal annars það að íslenska ríkið skuldbindur sig til þess að tryggja þegnum sínum það að þeir fá notið þeirra réttinda sem MDE segir að séu innifalin í þessum sáttmála. Það þýðir það að við erum skuldbundin til þess að fylgja eftir þeim réttindum sem Jón Ásgeir og Tryggvi fengu staðfest að þeir ættu með þessum dómi MDE 2017.“ 




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×