Erlent

Mueller: Kom ekki til greina að ákæra Trump vegna stefnu ráðuneytisins

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Robert Mueller lauk störfum í dag.
Robert Mueller lauk störfum í dag. Vísir/Getty
Robert Mueller, sérstakur saksóknari bandaríska dómsmálaráðuneytisins, tilkynnti á blaðamannafundi í dag að hann hefði lokið störfum. Á blaðamannafundinum tjáði hann sig í fyrsta skipti opinberlega eftir að skýrsla hans um meint samráð forsetaframboðs Donalds Trump við Rússa og tilraunir Trump til að hindra framgang réttvísinnar var birt.

Á blaðamannafundinum sagði Mueller að embætti hans hafi verið bundið af áliti eða stefnu dómsmálaráðuneytisins um að ekki væri hægt að sækja sitjandi forseta til saka vegna glæps sem hann kunni að hafa framið. Því hafi það ekki komið til greina að gefa út ákæru á hendur Trump.

„Það væri ósanngjarnt að saka einhvern um mögulegan glæp þegar ekki er hægt að leysa úr málinu fyrir dómsal,“ sagði Mueller á fundinum.

Ef hægt væri að segja með vissu að forsetinn hefði ekki framið glæp hefði það komið fram í skýrslunni

Mjög hefur verið deilt um niðurstöður skýrslu Muellers og er túlkun demókrata og repúblikana á skýrslunni mjög ólík. Trump og stuðningsmenn hafa haldið því fram að skýrslan hreinsi hann af öllum ásökunum en demókratar telja hins vegar að skýrslan gefi til kynna að Trump hafi reynt að hindra framgang réttvísinnar.

Um þetta sagði Mueller:

„Ef við hefðum trú á því að forsetinn hafi augljóslega ekki framið glæp, hefðum við sagt það berum orðum.“

Um hvort Trump eða aðilar tengdir honum hafi framið glæpi í kosningabaráttunni segir í skýrslunni að ekki hafi tekist að sýna fram á það að meðlimir forsetaframboðs Trump hafi verið í eða átt í samstarfi við rússnesku ríkisstjórnina.

Benti Muller á að stjórnarskrá Bandaríkjanna mælti fyrir um það að dómskerfi Bandaríkjanna væri ekki leiðin til þess að láta þá sem sitja í embætti bera ábyrgð í tengslum við afglöp eða glæpi í starfi, það hlutverk væri á herðum þingsins en neðri deild Bandaríkjaþings, undir stjórn demókrata, hefur hafið nokkrar rannsóknir á Trump.

Þá gaf Mueller sterklega í skyn að hann hefði ekki áhuga á því að koma fyrir þingnefndir til þess að ræða skýrsluna, hans hlutverki væri lokið. Lauk hann blaðamannafundi sínum á því að vara Bandaríkjamenn við áhrifum erlendra ríkja á bandarísk stjórnmál.

„Ég ætla að ljúka þessu með því að endurtaka að kjarninn í þeim ákærum sem við gáfum út er sá að það voru gerðar fjölmargar og kerfisbundnar tilraunir til þess að hafa áhrif á kosningarnar okkar. Það er eitthvað sem verðskuldar athygli allra Bandaríkjamanna.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×