Erlent

Taívan fyrst Asíuríkja til að heimila hjónabönd samkynja para

Gunnar Reynir Valþórsson og Samúel Karl Ólason skrifa
Á meðal þess sem ákveðið var að gera var að leggja málið í dóm þjóðarinnar í atkvæðagreiðslu á síðasta ári og þá var hugmyndinni hafnað.
Á meðal þess sem ákveðið var að gera var að leggja málið í dóm þjóðarinnar í atkvæðagreiðslu á síðasta ári og þá var hugmyndinni hafnað. AP/Chiang Ying-ying
Taívan varð í morgun fyrsta Asíuríkið sem heimilar hjónabönd samkynja para þegar þing landsins samþykkti frumvarp þess efnis. Stjórnarskrárdómstóll landsins hafði úrskurðað árið 2017 að fólk af sama kyni ætti rétt á að ganga í hjónaband og var þinginu gefinn tveggja ára frestur til að leiða það í lög.

Á meðal þess sem ákveðið var að gera var að leggja málið í dóm þjóðarinnar í atkvæðagreiðslu á síðasta ári og þá var hugmyndinni hafnað. Atkvæðagreiðslan var þó ekki bindandi og náði frumvarpið í gegn í morgun.

Mörg hundruð stuðningsmenn fögnuðu niðurstöðunni fyrir utan þinghúsið í höfuðborginni Taípei.

AP fréttaveitan segir forsvarsmenn trúarhreyfinga hafa komið í veg fyrir innleiðingu svipaðra laga víða um Asíu, eins og í Japan, en þó sé verið að skoða að gera samkynja pörum kleift að njóta staðfestar samvistar í Taílandi. Forsvarsmenn mannréttindasamtaka vonast til þess að þessar vendingar í Taívan muni leiða til að fleiri ríki Asíu samþykki sambærileg lög.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×