Insight lenti á Mars í nóvember en geimfarinu er ætlað að rannsaka innviði rauðu reikistjörnunnar. Um borð er fyrsti jarðskjálftamælirinn sem sendur hefur verið til Mars. Ætlunin er að kortleggja innra byrði reikistjörnunnar með nákvæmari hætti en hingað til hefur verið hægt.
Eftir að mörgum meginverkefnum geimfarsins var lokið í síðustu viku ákváðu stjórnendur þess að beina myndavél á hreyfanlegum armi þess að sjóndeildarhringnum. Myndirnar voru teknar 24. og 25. apríl þegar klukkan var 5:30 að morgni á tíma reikistjörnunnar og aftur þrettán klukkustundum síðar, að því er segir í tilkynningu Jet Propulsion Lab NASA sem stýrir leiðangrinum.

Fyrri Marsför NASA hafa tekið sambærilegar myndir, þar á meðal könnunarjepparnir Spirit, Opportunity og Curiosity, að sögn Space.com.