Erlent

Trump og fjölskylda reyna að stöðva eftirlit þingsins

Kjartan Kjartansson skrifar
Deutsche bank hefur verið helsti lánveitandi Bandaríkjaforseta. Hann vill nú að bankinn svari ekki stefnum Bandaríkjaþings um gögn.
Deutsche bank hefur verið helsti lánveitandi Bandaríkjaforseta. Hann vill nú að bankinn svari ekki stefnum Bandaríkjaþings um gögn. Vísir/EPA
Donald Trump Bandaríkjaforseti, börn hans og fyrirtæki hafa stefnt Deutsche Bank og Capital One og krefjast þess að fjármálastofnanirnar svari ekki stefnum Bandaríkjaþings um gögn. Stefnan er nýjasta útspil forsetans til að koma sér og ríkisstjórn sinni undan eftirliti þingnefnda.

Eftir að demókratar unnu meirihluta í fulltrúadeild Bandaríkjaþings hafa þeir nýtt formennsku sína í nefndum þingsins til þess að rannsaka Trump forseta og aðgerðir hans og ríkisstjórnar hans. Nýverið hefur Trump gripið til þess ráðs að skipa embættismönnum sínum að virða stefnur þingnefndanna að vettugi, þar á meðal varðandi skattskýrslur hans sem demókratar vilja fá aðgang að.

Washington Post segir að forsetinn, þrjú elstu börn hans og Trump-fyrirtækið hafi stefnt Deutsche bank og Capital One í gær. Deutsche bank hefur lánað Trump meira en 360 milljónir dollara undanfarin ár. Leyniþjónustu- og fjármálaþjónustunefndir fulltrúadeildarinnar höfðu stefnt bönkunum um gögn. Þær eru sagðar hluti af rannsókn á mögulegu peningaþvætti á illa fengnu rússnesku fé.

Í stefnunni halda lögfræðingar Trump-fjölskyldunnar fram sömu rökum og forsetinn og málsvarar hans hafa gert opinberlega undanfarið. Stefnur þingnefndanna séu „áreitni“ gegn forsetanum og að þeim sé ætlað að grúska í persónulegum upplýsingum hans, fjölskyldu hans og fyrirtækis til að finna efni sem gæti komið höggi á hann pólitískt. Stefnur þingnefndanna séu ólöglegar.

Áður hefur forsetinn stefnt bókhaldsfyrirtæki sínu til þess að koma í veg fyrir að það afhendi eftirlitsnefnd fulltrúadeildarinnar gögn um fjármál hans sem hún hefur gefið út stefnu um.

Lögspekingar telja þó ólíklegt að þau rök haldi. Líklegt sé þó að málaferlin geti seinkað því að nefndirnar komist yfir gögn um fjármál og viðskipti forsetans.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×