Íslenski boltinn

Arnar: Geðveikt mark hjá Loga

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Maður kvöldsins, Logi Tómasson, í baráttu við Kaj Leo í Bartalsstovu.
Maður kvöldsins, Logi Tómasson, í baráttu við Kaj Leo í Bartalsstovu. vísir/daníel
Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, kvaðst stoltur af sínu liði eftir jafnteflið gegn Íslandsmeisturum Vals. Hann var þó svekktur að hafa í þrígang misst niður forystu í leiknum.

„Ég er bæði stoltur og svekktur. Við komumst þrisvar sinnum yfir. Þetta var hörkuleikur og frábær auglýsing fyrir deildina,“ sagði Arnar við Vísi í leikslok.

„Við mættum þeim og pressuðum þá. Á köflum þurftum við að verjast en við vorum mjög ákveðnir og lögðum leikinn vel upp. Stolt og svekkelsi. Það eru orðin sem koma fyrst upp i hugann.“

Víkingar voru óhræddir við að spila út úr vörninni og í gegnum pressu Valsmanna.

„Við höfum æft í allan vetur og æft þetta vel. Strákarnir eru góðir í þessu. Við erum með unga og skemmtilega menn á miðjunni og frammi sem eiga framtíðina fyrir sér,“ sagði Arnar.

Logi Tómasson skoraði sannkallað draumamark á 75. mínútu.

„Þetta var geðveikt mark. Hann var flottur í vetur en fótbrotnaði svo fyrir nokkrum vikum. En hann er að skríða saman og minnti heldur betur á sig. Hann á framtíðina fyrir sér,“ sagði Arnar.



Hann segir að frammistaða Víkings í kvöld gefi góð fyrirheit fyrir framhaldið.

„Það eru ekki mörg lið sem koma hingað og taka stig. Valsliðið er frábært en við sýndum hugrekki. Svona á fótbolti að vera,“ sagði Arnar að endingu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×