Erlent

SpaceX skaut öflugustu eldflaug heims á loft

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá tilraunaskoti Falcon Heavy þegar Stjörnumanninum var skotið út í sólkerfið.
Frá tilraunaskoti Falcon Heavy þegar Stjörnumanninum var skotið út í sólkerfið. Vísir/SpaceX
Uppfært: Allt virðist hafa farið vel við geimskotið. Gervihnötturinn er á leið á sinn sporbraut og öllum þremur hlutum eldflaugarinnar var lent í heilu lagi.



Fyrirtækið SpaceX mun skjóta Falcon Heavy, öflugustu eldflaug heims, á loft í kvöld. Skotglugginn, eins og það er kallað, opnast rúmlega hálf ellefu og á að vera opinn í tvo tíma. Útlit er fyrir að veðrið muni ekki koma í veg fyrir það eins og síðustu kvöld.

Þetta er í annað sinn sem Falcon Heavy er skotið á loft en það var síðast gert í febrúar í fyrra þegar Stjörnumanninum svokallaða var skotið út í sólkerfið.

Sjá einnig: Allt gekk eins og í sögu hjá SpaceX

Falcon Heavy er 70 metra há og í rauninni er fyrsta stig hennar gert úr þremur Falcon 9 eldflaugum, sem SpaceX hefur notast við að undanförnu með góðum árangri. Skömmu eftir flugtak er hægt á miðjueldflauginni en hún heldur fluginu áfram þegar hinar tvær hafa losnað frá og eru aftur á leið til jarðarinnar.

Fyrstu tvær eldflaugarnar munu lenda á sama stað og þeim var skotið á loft en sú þriðja á að lenda á drónaskipi undan ströndum Flórída. Einnig stóð til að lenda henni í fyrra en hún varð eldsneytislaus og skall í hafið á miklum hraða.

Eldflaugin öfluga mun bera Arabsat-6A samskiptagervihnött á braut um jörðu. Gervihnötturinn verður notaður til að dreifa sjónvarpsútsendingum, útvarpsstendingum, interneti og símasambandi í Mið-Austurlöndum, Evrópu og Afríku, samkvæmt upplýsingum á vef SpaceX.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×