Laun bankastjóra Íslandsbanka og Landsbankans hafa verið lækkuð. Frá þessu er greint í bréfi Bankasýslu ríkisins til fjármála- og efnahagsráðherra í dag.
Laun Birnu Einarsdóttur, bankastjóra Íslandsbanka, verða 3.650.000 á mánuði án hlunninda frá og með 1. apríl. Laun hennar í dag eru 4.200.000 á mánuði en námu 3.850.000 á mánuði þegar ríkissjóður eignaðist allt hlutafé í bankanum árið 2016.
Þá hefur kaupaukakerfi bankans einnig verið afnumið með breytingum á eignarhaldi bankans. Samkvæmt upplýsingum Bankasýslunnar nema hlunnindi Birnu frá og með 1. apríl um 200 þúsund krónum á mánuði.
Nema því laun hennar með hlunnindum frá og með 1. apríl 3.850 þúsund krónum.
Hefur því öll hækkun sem varð frá yfirtöku ríkisins á bankanum verið dregin til baka.
Laun Lilju Bjarkar Einarsdóttur, bankastjóra Landsbankans, hafa verið lækkuð úr 3,8 milljónum króna í 3,2 milljónir króna og verða bifreiðahlunnindi hennar 206 þúsund krónur. Með hlunnindum verða heildarmánaðarlaun Lilju Bjarkar 3,5 milljónir króna frá og með 1. apríl næstkomandi.
