Almar er einn þeirra listamanna sem Unnur Elísabet Gunnarsdóttir leitaði til með listahátíð sína Ég býð mig fram, sem nú fer fram í Tjarnarbíói. Um er að ræða 14 örverk sem saman koma í listahátíð sem frumsýnd var á fimmtudaginn. Unnur leitaði á náðir nokkurra eftirlætis listamanna sinna og bað hvern og einn að semja örverk fyrir sýninguna.
Segja má að Tjarnarbíó umturnist þá daga sem sýningin fer fram en það er ekki aðeins á sviðinu sem listin er framin, heldur einnig í anddyrinu. Þar getur meðal annars að líta verk Almars, Merking, sem svo sannarlega vakti athygli frumsýningargesta sem sjálfum bauðst að taka þátt, með því að setja varanlegt mark sitt á Almar. Almar situr þar á palli, klæddur svörtum heilgalla sem hylur bæði andlit og líkama, utan lítillar opnunar á baki. Þar gefst gestum með ríka tjáningarþörf kostur á að húðflúra verk á bak Almars.

Flestu fólki treystandi
„Við skiptum bakinu á mér í fimm kassa á stærð við A5 og hver þeirra opnast svo eins og jóladagatal á sýningu.“ Nú þegar er búið að skipuleggja fimm sýningar, en hvað ætlar Almar að gera ef þær verða fleiri? „Við tökum þetta bara einn dag í einu,“ svarar hann hugsi.
„Það varð meira að segja til eitt samvinnuverkefni í gær, það var einn sem teiknaði hjarta og annar bætti við ör í gegnum það. Ég er bara hrærður yfir því að fólki vilji skilja eitthvað eftir á mér og þannig taka þátt,“ segir Almar sem segir það henta sér vel að vera þátttakandi í sýningunni en sjálfur sjá ekki neitt en andlit hans er algjörlega hulið á meðan á gjörningnum stendur. „Það er ekki annað hægt en að vera spenntur yfir að fá að taka þátt í þessari frábæru sýningu með þessu skemmtilega listafólki.“