Veðrið var hvað verst á Suðausturlandi þar sem björgunarsveitarmenn höfðu í nógu að snúast í morgun. Strax um hálf fimm í morgun barst útkall vegna erlendra ferðamanna sem voru í vanda við Hvalsnes þar sem stormurinn var svo öflugur að möl tókst á loft og sprengdi rúður í bíl sem þeir höfðu á leigu.
Það sama gerðist síðan aftur upp úr klukkan níu en heilt yfir sprungu rúður í fimm bílum á veginum um Hvalnes.
Klæðning fauk einnig af veginum í Lóni við gangnamunna undir Almannaskarð.

„Hann var heldur ekki árennilegur strengurinn í fjallhæð um það leyti sem veður náði hámarki fyrir hádegi. 850 hPa vindurinn kl. 8 í morgun sést á litskrúðuga kortinu og má lesa þegar glöggt er skoðað 48-50 m/s í fjallahæð á þessum slóðum,“ skrifar Einar á Facebook-síðu sína.
Um svipað leyti náði meðalvindur í Papey um 41 metra á sekúndu að sögn Einars sem bætir við að það sé óskaplega mikill vindur á alla mælikvarða.
„Enda er maður ekki hissa í þessum hamförum að grjót hafi flogið í Hvalnesskriðum úr öllum áttum og að byggingarhlutar á Höfn jafnframt gefið sig, sbr. bræðslu Skinney-Þinganess.“