Í tilkynningu frá Lionsklúbbnum segir að Davíð Rúnnar Gunnarsson, slökkviliðsstjóri, hafi tekið við hitamyndavélinni og hún muni nýtast vel við slökkvistörf. Reykköfun verði öruggari, fljótvirkari og árangursríkari til mannbjörgunar. Þá verði hægt að nota hana til að leita að eldi í klæðningu og annarra starfa.
Siggeir Guðnason, formaður Blakks, tók við drónanum, og ku hann vera af nýjustu og fullkomnustu gerð. Dróninn er útbúinn tveimur myndavélum. Annars vegar hitamyndavél og hins vegar aðdráttarmyndavél.
Þá tók Helgi Páll Pálmason, sjúkraflutningamaður, á móti skjánum. Hann er beintengdur Neyðarlínunni og fá sjúkraflutningamenn upplýsingar jafnóðum sem tengist þeim sjúklingi sem á að sinna. Sem dæmi megi nefna nákvæma staðsetningu sem birtist í leiðsögukerfi og mikilvægar upplýsingar úr sjúkraskrá.
„Er það von Lionsklúbbs Patreksfjarðar að þessar gjafir muni koma að góðum notum og vill þakka viðbragsaðilum fyrir sitt óeigingjarna starf í þágu samfélagsins,“ segir í tilkynningunni.

