Körfubolti

Sjáðu hvernig þú kemst upp með það að taka fimm skref í NBA-deildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ég má þá taka fimm skref, gæti Bradley Beal hjá Washington Wizards verið að segja við NBA-dómarann Tony Brothers.
Ég má þá taka fimm skref, gæti Bradley Beal hjá Washington Wizards verið að segja við NBA-dómarann Tony Brothers. Getty/Tom Szczerbowski
NBA-dómarar hafa nú tekið upp þann sið að verja dóma sína á Twitter. Þeim tókst þannig að verja þá ákvörðun kollega sinna að dæma ekki skref á Bradley Beal.

Það eru ekki dómarnir sjálfir sem eru að verja sig heldur eru það kollegar þeirra sem tjá sig um ákveðna dóma á Twitter-síðunni OfficialNBARefs.

Bradley Beal fór að mati flestra ansi frjálslega með skrefin í leik Washington Wizards á móti Detroit Pistons.





Þegar hann var að því virtist búinn með skrefin og Blake Griffin búinn að loka öllum leiðum þá bjargaði Bradley Beal sér út úr ógöngunum með því að taka tvö skref í viðbót.

Þeir sem hafa séð þetta furðulega atvik telja sig geta talið fimm skref hjá Bradley Beal en enginn dómaranna flautaði hins vegar og leikurinn hélt áfram.

Twitter-síða dómaranna felldi síðan þann dóm að það hafi verið rétt að leyfa Bradley Beal að komast upp með að taka fimm skref.





Aðalástæðan fyrir því að Bradley Beal mátti taka þessi fimm skref að dómararnir telja að hann hafi um tíma misst valdið á boltanum og með því endurnýjað skrefin sín.

Skrefadómar í NBA-deildinni vekja oft furðu ekki síst þar sem sumar stjörnur deildarinnar mega oft fara ansi frjálslega með skrefaregluna.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×