Viðskipti innlent

Framkvæmdastjóri hjá Vegagerðinni sendur í leyfi

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Sigurður Áss Grétarsson, framkvæmdastjóri siglingasviðs Vegagerðarinnar.
Sigurður Áss Grétarsson, framkvæmdastjóri siglingasviðs Vegagerðarinnar. Vísir/BHJ
Sigurður Áss Grétarsson, framkvæmdastjóri siglingasviðs hjá Vegagerðinni, hefur verið sendur í leyfi frá störfum. Samstarfsmönnum hans var tilkynnt um ákvörðunina í gær.

Samkvæmt heimildum Vísis snýr málið að samskiptavanda innan Vegagerðarinnar sem hefur verið til skoðunar.

G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, gat í samtali við fréttastofu ekki gefið upp hvað fyrirhugað sé að Sigurður verði lengi frá störfum. Hann reiknaði þó ekki með því að það yrði í mjög langan tíma. Málið sé viðkvæmt en stofnunin hafi notið liðsinnis utanaðkomandi sérfræðinga við úrvinnslu þess.

Fréttastofa beindi jafnframt fyrirspurnum til Bergþóru Þorkelsdóttur, forstjóra Vegagerðarinnar, og Sigurðar Áss vegna ákvörðunarinnar. Hvorugt vildi tjá sig nánar.

Sigurður Áss er verkfræðingur að mennt og hefur til dæmis verið áberandi í umfjöllun fjölmiðla um málefni Landeyjahafnar og nýs Herjólfs. Áður en Sigurður hóf störf hjá Vegagerðinni gegndi hann stöðu forstöðumanns hafnasviðs Siglingastofnunar. Hann var jafnframt meðal þeirra 25 einstaklinga sem sóttu um stöðu forstjóra Vegagerðarinnar um mitt síðasta ár.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×