Erlent

Telja 26 ríkustu mennina eiga jafn­mikið og fá­tækari helming mann­kyns

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Jeff Bezos, stofnandi Amazon, er ríkasti maður í heimi. Aðeins eitt prósent auðæfa hans er talið jafngilda fjárlögum heils Afríkuríkis, Eþíópíu.
Jeff Bezos, stofnandi Amazon, er ríkasti maður í heimi. Aðeins eitt prósent auðæfa hans er talið jafngilda fjárlögum heils Afríkuríkis, Eþíópíu. vísir/getty
Samkvæmt nýrri skýrslu bresku góðgerðarsamtakanna Oxfam um skiptingu auðs í heiminum eiga 26 ríkustu menn heims jafnmikinn auð og sá helmingur mannkyns sem hefur minnst á milli handanna.

Frá þessu er greint á vef Guardian en um er að ræða skýrslu sem Oxfam gefur út árlega í tengslum við World Economic Forum sem fram fer í Davos í Sviss. Ráðstefnan hefst á morgun.

Í skýrslu Oxfam fyrir árið 2018 segir að bilið á milli ríkra og fátækra í heiminum hafi breikkað enn meira í fyrra. Segir í skýrslunni að það að bilið haldi áfram að breikka en ekki öfugt sé hindrun í baráttunni gegn fátækt í heiminum.

Oxfam telur að eitt prósent hátekjuskattur myndi skila nægum tekjum til þess að senda hvert barn í skóla sem ekki er í skóla og veita heilbrigðisþjónustu sem myndi koma í veg fyrir það að þrjár milljónir manna myndu deyja.

Samkvæmt skýrslunni er auðurinn alltaf að safnast á færri hendur ár frá ári. Þannig átti 61 einstaklingur jafnmikinn auð og fátækari helmingur mannkyns árið 2016 en þessi tala var komin niður í 43 árið 2017. Í fyrra var talan síðan komin niður í 26 eins og áður var getið.

Sem dæmi má nefna að ríkasti maður heims, Jeff Bezos, stofnandi Amazon, jók auð sinn í fyrra upp í 112 milljarða dollara en aðeins eitt prósent af auðæfum hans jafngildir fjárlögum Afríkuríkisins Eþíópíu þar sem búa 105 milljónir manna.

Fréttin hefur verið uppfærð þar sem upplýsingar um auð Bezos voru rangar í fyrstu útgáfu hennar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×