Það kom engum á óvart að Kansas City Chiefs skildi reka varnarþjálfarann Bob Sutton eftir að liðið hafði tapað gegn New England Patriots í undanúrslitum NFL-deildarinnar.
Vörn Chiefs í vetur var sú næstlélegasta í deildinni á meðan sókn Chiefs var sú besta. Með aðeins betri vörn þá hefði Chiefs farið alla leið að margra mati.
Höfðingjarnir voru fljótir að finna arftaka Sutton því í gær réð félagið Steve Spagnuolo sem varnarþjálfara. Sá vann með aðalþjálfara Chiefs, Andy Reid, hjá Eagles frá 1999 til 2006.
Spagnuolo hefur verið varnarþjálfari hjá NY Giants í tvígang en hann var aðalþjálfari Rams frá 2009 til 2011. Þar gekk lítið hjá honum. Hann var líka aðalþjálfari hjá Giants til bráðabirgða árið 2017.
